Ný nefnd, eða starfshópur, Íslendinga og Dana verður kynnt í vikunni. Samkvæmt menntamálaráðuneytinu er verið að ganga frá formsatriðum skipunarinnar.

Á miðvikudag verður hálf öld frá því að skinnhandrit Flateyjarbókar og Konungsbókar eddukvæða voru afhent í Reykjavíkurhöfn. Við tók 26 ára vinna við að skipta handritunum milli Íslendinga og Dana. Lilja Alfreðsdóttir hefur lýst því yfir að hún vilji fá afganginn til baka, alls um 1.400 handrit.

Þetta ítrekaði hún meðal annars í viðtali við danska dagblaðið Kristelig Dagblad á laugardag. „Ég geri mér grein fyrir því að handritin hafa mikla þýðingu fyrir bæði lönd,“ sagði hún.

Þann 25. september á síðasta ári skilaði starfshópur ráðherra tillögum að því hvernig staðið yrði að viðræðunum við Dani. Sú greinargerð hefur ekki verið gerð opinber og í desember úrskurðaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál gegn blaðamanni sem krafðist þess að fá greinargerðina afhenta.

Í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins segir Kristrún Heiða Hauksdóttir, upplýsingafulltrúi menntamálaráðuneytisins, að gögn starfshópanna verði gerð opinber að verkefninu loknu.