Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hyggst tilkynna umdeild merki sem sáust á búningi lögreglukonu til eftirlitsnefndar um störf lögreglu.

Þá segist embættið harma mjög að hafa valdið fólki særindum vegna málsins og biðja alla hlutaðeigandi innilegrar afsökunar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá embættinu.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vill taka skýrt fram að hún styður ekki með neinum hætti hatursorðræðu eða merki sem ýta undir slíkt. Þetta er nefnt hér vegna umfjöllunar fjölmiðla og myndbirtingar af lögreglumanni fyrr í dag, en á búningi hans mátti sjá merki sem eru óviðeigandi með öllu.“

Lögreglumönnum bannað að bera óþarfa merki

Þá eru skilaboðin sem mátti lesa úr merkjunum jafnframt sögð í engu samræmi við fræðslu, stefnu og markmið lögreglunnar. Lögreglumönnum hjá embættinu hafi verið send skýr fyrirmæli um að fjarlægja öll merki af lögreglubúningum sínum sem eru ekki í samræmi við reglugerð.

Mikil reiði hefur sprottið á samfélagsmiðlum í dag vegna fánanna sem lögreglukonan sést bera á ljósmynd Morgunblaðsins sem er nokkurra ára gömul. Eru merkin sögð tengjast kynþáttahatri og öfgaskoðunum en til að mynda hefur sá neðsti verið notaður af nýnasistum og hvítir öfgahópum.

Algjörlega ótækt

Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við Fréttablaðið fyrr í dag að umrædd merki væru „allt frá því að vera mjög umdeild og út í að vera hreinlega ósmekkleg.“

Þá bætti hann við að merkingarnar væru „algerlega ótækar og gefa skilaboð í þveröfuga átt og inn í hópa sem sem lögreglan er að hamast við að reyna að nálgast og ná betra sambandi við alla daga.“

Kannaðist ekki við neikvæða merkingu fánanna

Sjálfur sagðist Ásgeir stórefast um að allir áttuðu sig í raun á því hvað þessi merki standi fyrir eða hvernig þau geti verið túlkuð. Sjálf sagði konan sem sést bera merkin á myndinni í samtali við RÚV að það hafi komið sér í opna skjöldu að fánarnir hafi verið túlkaðir á neikvæðan og rasískan hátt.

Ásgeir, Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, og Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri hafa öll staðfest í samtali við Fréttablaðið að umræddar merkingar séu ekki í samræmi við reglugerðir um merkingar á lögreglufatnaði.

Fréttin hefur verið uppfærð.