Tilkoma Costco virðist ekki hafa leitt til þess að Íslendingar fái sjónvarpstæki á betra verði en áður, samanborið við Danmörku. Verðmunur á sjö sjónvarpstækjum í Costco annars vegar og Danmörku hins vegar leiðir í ljós að tækin eru að jafnaði um 35 prósent dýrari í Costco.

Þegar verð á sjónvarpstækjum í Costco er borið saman við verð í öðrum íslenskum raftækjaverslunum má segja að verðlagið sé áþekkt. Samanlagt verð tækjanna sjö í Costco annars vegar og öðrum íslenskum raftækjaverslunum hins vegar, er það sama.

Á annan tug sjónvarpstækja er til sölu í Costco. Blaðamaður heimsótti verslunina í byrjun febrúar og skráði verð á ellefu tækjum. Fljótt á litið fann blaðamaður út að sjö þeirra eru til sölu í öðrum íslenskum verslunum; tvö í Elko, tvö í Raflandi og Heimilistækjum og þrjú í Origo, sem áður hét Nýherji.

Tvö LG-tæki eru til sölu í Costco sem einnig finnast í öðrum raftækjaverslunum. Þar er á ferðinni 43 tommu LG tæki (UJ750V) og kostar það 110 þúsund krónur í Costco. Tækið kostar 100 þúsund krónur í Raflandi og Heimilistækjum á lækkuðu verði (2. febrúar) en áður var verðið 120 þúsund krónur, samkvæmt upplýsingum úr vefverslunum. Tækið kostar rúmlega 94 þúsund krónur í Wupti í Danmörku.

Hitt LG-tækið er 65 tommu (týpa 65E7V) og kostar 545 þúsund krónur í Costco. Á tilboðsverði í Raflandi og Heimilistækjum fæst tækið á 500 þúsund (2. febrúar). Áður var verðið það sama og í Costco. Tækið kostar rúmlega 421 þúsund krónur í Elgiganten í Danmörku.

Hin tækin fimm sem bæði eru til í Costco og í öðrum íslenskum raftækjaverslunum eru af gerðinni Sony. Tvö þeirra er að finna í Elko. Sony KD65XE8505 Kostar 217 þúsund í Costco, 224 þúsund í Elko  (2. febrúar) en 168 þúsund í Elgiganten Danmörku. Það er því fjórðungi ódýrara í Danmörku.

Hitt tækið í Elko, KD55XE8505, kostar þar 155 þúsund krónur (2. febrúar) en ríflega 148 þúsund krónur í Costco. Verðið í Wupti  í Danmörku jafngildir ríflega 112 þúsund íslenskum krónum.

Eftir standa þrjú Sony-tæki sem fást bæði í Costco og Origo, áður Nýherja. KD55A1BAEP kostar 355 þúsund í Costco (2. febrúar) en 387 þúsund í Origo, á lækkuðu verði. Verðið í Danmörku er meira en hundrað þúsund krónum lægra en í Costco, eða 253 þúsund í Elgiganten.


Sextíu og fimm tommu tækið, KD65A1BAEP, kostar (2. febrúar) tæpar 510 þúsund krónur í Costco en 570 þúsund í Origo. Verðið í Hi-Fi klubben í Danmörku er rúmar 370 þúsund krónur. Þarna munar 140 þúsund krónum á verðinu í Danmörku og í Costco, Íslendingum í óhag.


Að endingu skal verð á 75 tommu Sony-tæki skoðað, KD75XE8596. Tækið kostar 400 þúsund í Origo (2. febrúar) en er töluvert dýrara í Costco. Þar er tækið á 445 þúsund krónur. Danir hafa enn vinninginn. Í Bilka má fá sama tæki á 286 þúsund krónur. Munurinn er um 160 þúsund krónur.

Í stórri verðkönnun sem birtist í DV í desember 2016, hálfu ári áður en Costco opnaði, kom fram að verðmunur á 55 sjónvarpstækjum á Íslandi og á Norðurlöndunum var að jafnaði 30 prósent, Íslendingum í óhag. Verðið var að jafnaði 25% lægra í Danmörku en á Íslandi.

Ef niðurstöður þessarar verðkönnunar eru dæmigerðar fyrir markaðinn í heild, og muninn á milli landa, má sjá að breytingin fyrir og eftir opnun Costco er lítil. 

Taka má fram að rúmt ár er síðan tollur af sjónvarpstækjum, sem áður var 7,5% af sjónvarpstækjum sem höfðu Asíu sem upprunasvæði, var felldur niður. Nú er enginn tollur á sjónvarpstæki.