Landvernd efnir í dag til ráðstefnu á Facebook-síðu sinni um af hverju þjóðgarður á hálendi Íslands sé góð hugmynd.

„Náttúra Íslands er verðmæt auðlind og sameign okkar allra. Á ráðstefnunni verður skoðað hvernig þjóðin getur sem best notið þessara verðmæta, bæði í efnahagslegum skilningi og til þess að auðga lífið,“ segir í tilkynningu Landverndar.

Meðal þeirra sem flytja erindi á ráðstefnunni eru Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Carol Ritchie, framkvæmdastjóri EUROPARC, sambands verndarsvæða í Evrópu. Samkvæmt frumvarpi á Alþingi yrði land í sameign þjóðarinnar innan miðhálendislínu gert að þjóðgarði. „Hálendisþjóðgarður myndi ná yfir um 30 prósent af Íslandi, en um helmingur mögulegs Hálendisþjóðgarðs nýtur nú þegar verndar,“ segir í tilkynningunni.