Ís­lensk rann­sókn bendir til þess að til­finninga­vinna kvenna á Ís­landi hafi aukist veru­lega í Co­vid-19 far­aldrinum. Höfundar rann­sóknarinnar, þær Andrea Hjálms­dóttir, doktors­nemi og Val­gerður Bjarna­dóttir, nýdoktor, munu kynna rann­sóknina á Þjóðar­speglinum á morgun en þær segja niður­stöðurnar ekki hafa komið sér á ó­vart.

„Flestar rann­sóknir, bæði hér­lendis og er­lendis frá, benda til þess að konur beri enn meiri þunga af heimilis­störfum og barna­upp­eldi en karlar,“ segir Andrea í sam­tali við Frétta­blaðið. Þessi ó­launaða vinna kvenna hafi síðan aukist til muna með komu far­aldursins.

Ís­lenskt sam­hengi

Í byrjun far­aldursins bárust fregnir til eyrna Andreu og Val­gerðar þess efnis að sam­komu­tak­markanir hefðu meiri á­hrif á konur en karla er­lendis. „Við á­kváðum þá að það væri á­huga­vert að skoða þetta í ís­lenskum sam­hengi og keyrðum þessa rann­sókn af stað.“

Rann­sóknin var fram­kvæmd í kapp við tímann þar sem rann­sak­endur gerðu ráð fyrir að far­aldurinn myndi ganga fljótt yfir og ekki hefjast að nýju líkt og raunin sýndi síðar fram á. „Við reyndum að bregðast mjög hratt við þessu á­standi og aug­lýstum eftir þátt­tak­endum á sam­fé­lags­miðlum snemma í vor.“

Andrea Hjálmsdóttir og Valgerður Bjarnadóttir eru höfundar rannsóknarinnar.

Dag­legt líf í upp­námi

Alls tóku um 50 for­eldrar þátt en niður­stöðurnar eru byggðar á dag­bókar­færslum um 40 mæðra, þar sem færri karlar kusu að taka þátt. Mark­mið rann­sóknarinnar var að skoða á­hrif Co­vid-19 far­aldursins á heimilis­líf, heimilis­störf og um­önnun barna.

„Fyrr í vor hafði far­aldurinn þau á­hrif að vegna sam­komu­tak­markanna færðist of­boðs­lega mikil vinna aftur inn á heimilin.“ Skerðingar á leik- og grunn­skóla­starfi, lokanir fram­halds­skóla og breytingar á starfs­öryggi höfðu víð­tæk á­hrif á dag­legt líf fólks. „Mikill tími fór í að sinna heima­námi, mál­tíðum, tóm­stundum og hafa ofan af fyrir börnum á sama tíma og flestir þátt­tak­endur þurftu að skila fullu vinnu­fram­lagi að heiman.“

Rann­sak­endur drógu þá á­lyktun að rann­sókninni lokinni að niður­stöðurnar vörpuðu ljósi á vanda­mál sem hafi þegar verið til staðar. „Á­standið í sam­fé­laginu breytti ekki endi­lega miklu en vissu­lega dró það fram í dags­ljósið hvernig verka­skiptingin er á heimlinum.“

Jafn kvíðnar og aðrir

Í dag­legum dag­bókar­færslum þátt­tak­enda kom bæði fram hversu miklum tíma var eytt í á­kveðin störf á heimilinu og hvaða breytingar höfðu orðið á dag­legu lífi fólks, þá sér­stak­lega þegar kemur að verka­skiptingu og á­byrgð.

„Þessar mæður sem tóku þátt hjá okkur lýstu því hvernig þær báru í raun hitann og þungann af verk­stjórninni og á­byrgðinni á heimilinu og svo lýsa þær því líka hvernig þær leggja heil­mikið á sig til að börnin þeirra og maki sjái ekki að þær séu jafn kvíðnar yfir á­standinu og aðrir fjöl­skyldu­með­limir.“

Þessi streita kom skýrt fram í dag­bókar­færslunum. „Ég nenni ekki þessu á­standi en reyni að vera já­kvæð, sér­stak­lega við manninn og börnin,“ skrifaði ein móðir í far­aldrinum.

Fela eigin til­finningar

Mæðurnar voru þó allar stað­ráðnar í að mæta þessum breyttu að­stæðum með já­kvæðni og að láta hvergi bil­bug á sér finna að sögn Andreu. „Þær inntu af hendi til­finninga­vinnu með því að passa upp á vel­líðan annarra fjöl­skyldu­með­lima og styðja þá and­lega.“ Á sama tíma földu mæðurnar eigin van­líðan til að hlífa öðrum fjöl­skyldu­með­limum.

Ekki eru til margar ís­lenskar rann­sóknir um til­finningar­vinnu. „Þær rann­sóknir sem eru til hafa bent til þess að verk­stjórnin á liggi enn frekar í höndum kvenna sem og til­finninga­vinna.“ Hægt er að fylgjast með erindi Andreu og Val­gerðar í Þjóðar­speglinum á morgun.