Anna Lára Steindal, verkefnastjóri í málefnum fatlaðs fólks af erlendum uppruna hjá Þroskahjálp, var meðal þeirra sem fluttu ræður á mótmælum gegn brottvísun fimmtán manns af íröskum uppruna á Austurvelli í dag.

Í ræðu sinni fór hún yfir brottvísunina frá sjónarhorni réttinda fatlaðs fólks, sem hefur verið álitaefni í málinu þar sem einn þeirra sem vísað var brott, Hassein Hussein, var fatlaður maður sem notaðist við hjólastól. Hann var tekin úr hjólastólnum þegar lögregla handtók hann og sendur til Grikklands án hans.

„Hassein er reyndar ekkert eini fatlaði umsækjandinn um alþjóðlega vernd sem við höfum komið að máli hjá,“ segir Anna Lára við Fréttablaðið. „Þetta hefur verið talsvert á annan tug mála. Við höfum verið að vekja athygli á því að við teljum að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sé virtur að vettugi við meðferð þessara umsókna.“

Anna segir Þroskahjálp hafa fagnað því að mál Hasseins hafi verið tekið upp hjá íslenskum dómstólum þar sem samtökin hafi álitið það tækifæri til að komast að raun um hvort yfirvöld væru þeim sammála um að samningurinn hefði vægi við málsmeðferðir af þessu tagi.

„Þess vegna finnst okkur óskiljanlegt að maðurinn sé fluttur burtu tveimur vikum áður en málið er tekið fyrir, því þetta hefur ekki bara þýðingu í hans máli heldur almennt, og þetta er mál sem við höfum verið að reyna að fá svar við í tvö ár. Ef stjórnvöld hafa mannréttindi í hávegum ættu þau að fagna þessu tækifæri til að fá úr því skorið hjá dómstólum og hefðu átt að gera allt til að vanda málsmeðferðina eins og vel og hægt er. Ég get engan veginn séð að það sé hægt að uppfylla skyldur okkar gagnvart fötluðum einstaklingi sem er að koma fyrir dóm án þess að leyfa honum að vera hérna til þess að hann geti talað máli sínu.“

Mynd/Aðsend

Anna Lára bendir á að árið 2017 hafi Alþingi samþykkt mótatkvæðalaust að fullgilda valfrjálsan viðauka við samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks sem felur í sér að fatlað fólk eða samtök á borð við Þroskahjálp geti leitað til nefndar SÞ um framkvæmd samningsins til að fá úrlausnir við ágreiningsefnum. „En af því að stjórnvöld hafa virt þessa ákvörðun Alþingis að vettugi í fimm ár getum við ekki nýtt þetta núna. Það myndi vera miklu betra eftirlit með framkvæmd samningsins ef stjórnvöld framkvæmdu ákvörðun samningsins.“

Sigrún Ásta Gunnarsdóttir, nemandi við Fjölbrautaskólann í Ármúla, hélt einnig ræðu á mótmælafundinum. Systurnar Zahraa og Yasameen Hussein, sem var jafnframt vísað burt til Grikklands, voru vinkonur Sigrúnar í skólanum. Lögregla sat fyrir þeim fyrir utan skólann til að flytja þær burt ásamt fjölskyldunni. Sigrún segir þær nú vera með skóladótið sitt en ekki fötin sín.

Mynd/Aðsend

„Zahraa og Yasameen eru bestu nemendur sem ég hef séð, með stóra og bjarta framtíð,“ sagði Sigrún í ræðu sinni. „Af hverju þurftuð þið að taka hana frá þeim? Læknadraumurinn farinn. Þið tókuð hann burt!“

Í ræðu sinni hrósaði Sigrún systrunum í hástert bæði fyrir námshæfileika þeirra og fyrir vinsemd þeirra og kurteisi. Hún sagðist hafa reynt að tala við systurnar gegnum sína en sambandið væri afskaplega lélegt. „Mig vantar að tala við vinkonur mínar! Þið skemmduð ekki bara lífið þeirra heldur líka marga annara sem eru náin þeim.“

Sigrún segir að Yasameen hafi átt afmæli í fyrradag, þann 4. nóvember. „Hversu skemmtilegur afmælisdagur að vera á götunni.“