„Líf mitt er í rúst eftir að dóttir mín var myrt,“ segir móðir Louisu Vesterager Jespersen, danskrar konu sem var myrt með hrottafengnum hætti í Marokkó á síðasta ári, í tilfinningaríku bréfi sem lesið var í réttarsal í Marokkó í dag.
Alls eru 24 vígamenn ákærðir fyrir morðin á Jespersen, sem var 24 ára þegar hún lést, og hinni norsku Maren Ueland, 28 ára, en þær voru á ferðalagi Atlasfjöllunum í Marokkó þegar mennirnir urðu á vegi þeirra.
Aðalmeðferð í málinu var fram haldið í dag en dómur kemur næst saman 18. júlí þegar málflutningur fer fram. Þá mun sömuleiðis koma í ljós hvenær dómur verður kveðinn upp í málinu.
„Ég tárast þegar ég hugsa um hana,“ sagði móðir Jespersen í bréfi sem starfsmaður réttarins las upp í dag. „Ég veit fyrir víst að hún kallaði á mig þegar hún var myrt.“
Einn af vígamönnunum játaði við aðalmeðferðina, sem hófst í maí, að hafa afhöfðað aðra stúlknanna. Hinn 25 ára Abdessamad Ejjoud sagði fyrir dómi að mennirnir hafi verið innblásnir af voðaverkum Íslamska ríkisins.
Younes Ouaziyad, 27 ára, og Rachid Afatti, 33 ára, eru ásamt áðurnefndum Ejjoud taldir hafa fyrirskipað morðin og tekið þátt í þeim. Þeir gætu þeir átt yfir höfði sér dauðarefsingu verði þeir fundnir sekir.
„Þeir eiga ekkert annað skilið en dauðarefsingu,“ sagði í bréfi móðurinnar að er norska ríkissjónvarpið, NRK, greinir frá. „Heimurinn væri betri staður án þeirra.“