Fólk kom saman fyrir framan Bræðraborgarstíg 1 til að minnast þeirra sem létust í brunanum fyrir helgi. Blóm voru lögð fyrir framan húsið ásamt skiltum frá samstöðufundinum á Austurvelli í dag.

Gengið var saman frá Alþingishúsi og safnaðist fólk saman fyrir framan húsið og stóð þögult og horfði saman á rústirnar. Kyrrðarstundin var áhrifamikil og felldu nokkrir tár í þögninni. Íbúar hverfisins voru á svæðinu ásamt skipuleggjendum og öðrum fulltrúum úr pólska samfélaginu til að votta aðstandendum samúð.

Hópurinn fundar á morgun með fjölskyldum þeirra sem létust til að veita þeim aðstoð.

Slökkvilið, lögreglufulltrúar og borgarstjóri mættu á Austurvöll og sýndu hópnum samstöðu. Slökkviliðsbíll elti svo mannfjöldann að húsinu og tók sér stöðu á götunni rétt hjá húsinu.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri lagði blómvönd fyrir framan húsið.
Fréttablaðið/Ingunn Lára