Hans Klu­ge, yfir­maður Evrópu­deildar Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnunarinnar (WHO), sagði í gær nauð­syn­legt að bregðast við apa­bólunni án tafar. Til­fellum innan Evrópu hafa að hans sögn þre­faldast á undan­förnum tveimur vikum.

Níu­tíu prósent greindra til­fella hafa orðið í Evrópu í nú­verandi far­aldri, sam­kvæmt gögnum frá WHO. Nú hafa 4500 til­felli verið stað­fest hjá 31 landi innan Evrópu, þre­falt fleiri en voru stað­fest 15. júní.

Klu­ge segir mikil­vægt að brugðist sé hratt og örugg­lega við út­breiðslunni til að koma í veg fyrir að sjúk­dómurinn nái föstum tökum í heims­álfunni. Í því skipti tíminn höfuð­máli.

Gætu endurhugsað neyðarástand


Síðast­liðinn sunnu­dag á­kvað WHO að lýsa ekki yfir al­þjóð­legu neyðar­á­standi vegna apa­bólunnar en yfir­maður stofnunarinnar, Tedros Adhanom Ghebreyesus, sagði hana vera vaxandi ógn.

Ghebreyesus kallaði eftir því að ríkis­stjórnir myndu bjóða upp á apa­bólu-próf, sinna smitrakningu, fylgjast grannt með þróun sjúk­dómsins og gæta þess að fólk í á­hættu­hópi hefði að­gang að bólu­efni.

Að sögn Klu­ge mun WHO að öllum líkum endur­hugsa hvort um sé að ræða al­þjóð­legt neyðar­á­stand, í ljósi þess hve hratt til­fellum er að fjölga. Hann segir 99 prósent smitaðra í Evrópu vera karl­menn 21 til 40 ára. Meiri­hluti smitaðra skil­greini sig sem karl­menn sem sofa hjá öðrum karl­mönnum.

Um tíu prósent þurfi innlögn


For­dómar gagn­vart hin­segin fólki í ákveðnum löndum innan Evrópu hefur gert WHO erfitt fyrir að ná réttri mynd af far­aldrinum, að sögn Klu­ge. Í sumum löndum kunni fólk að veigra sér við því að leita til læknis vegna ein­kenna apa­bólu af hræðslu við að kyn­hneigð þeirra verði opinberuð.

Sjúk­dómurinn berst manna á milli við náin sam­skipti, svo sem við kyn­líf, en dæmi eru um að fólk smitist undir öðrum kring­um­stæðum.

Um tíu prósent þeirra sem hafa verið með stað­fest smit hafa þurft að leggjast inn á spítala til að­hlynningar. Að­eins einn sjúk­lingur hefur þurft að fara á gjör­gæslu vegna sjúk­dómsins og enginn hefur enn látist.