Lögreglan á Vestfjörðum rannsakar nú tildrög áreksturs tveggja bifreiða á Hnífsdalsvegi, milli Hnífsdals og Ísafjarðar. Slysið átti sér stað á áttunda tímanum í gærkvöldi og var Samhæfingarmiðstöð almannavarna í Skógarhlíð virkjuð vegna slyssins.
Þrír voru fluttir alvarlega slasaðir með sjúkraflugi til Reykjavíkur á tíunda tímanum í gærkvöldi. Tveir hljóta aðhlynningu á sjúkrahúsinu á Ísafirði.
„Flutningurinn gekk mjög vel á þessum þremur. Það komu áhafnir sem komu í hús og hjálpuðu okkar fólki að undirbúa sjúklingana undir flutninginn. Það voru mjög margir sem komu að þessu, bæði áhafnir á vélunum og sjúkraflutningamennirnir hjá slökkviliði Ísafjarðarbæjar og starfsfólkið okkar,“ segir Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Hinir slösuðu séu allir heimamenn.
Á áttunda tug manna komu að aðgerðunum í heildina í gær, þar af fimmtíu á vettvangi og við vettvang. Hlynur Snorrason, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á Vestfjörðum, segist þó ekki geta gefið upp tildrög slyssins að svo stöddu. Málið sé í rannsókn.
„Það er snjólaust hérna, en í gær og í dag er ísing á vegi. Þannig að hann er aðeins hálli. En hvort það sé samverkandi þáttur verður bara að koma í ljós,“ segir Hlynur
Rýnifundur er áætlaður klukkan þrjú í dag fyrir alla þá sem komu að aðgerðunum í Hnífsdal.