Lög­reglan á Vestfjörðum rann­sakar nú til­drög á­reksturs tveggja bif­reiða á Hnífs­dals­vegi, milli Hnífs­dals og Ísa­fjarðar. Slysið átti sér stað á áttunda tímanum í gær­kvöldi og var Sam­hæfingar­mið­stöð al­manna­varna í Skógar­hlíð virkjuð vegna slyssins.

Þrír voru fluttir al­var­lega slasaðir með sjúkra­flugi til Reykja­víkur á tíunda tímanum í gær­kvöldi. Tveir hljóta að­hlynningu á sjúkra­húsinu á Ísa­firði.

„Flutningurinn gekk mjög vel á þessum þremur. Það komu á­hafnir sem komu í hús og hjálpuðu okkar fólki að undir­búa sjúk­lingana undir flutninginn. Það voru mjög margir sem komu að þessu, bæði á­hafnir á vélunum og sjúkra­flutninga­mennirnir hjá slökkvi­liði Ísa­fjarðar­bæjar og starfs­fólkið okkar,“ segir Gylfi Ólafs­son, for­stjóri Heil­brigðis­stofnunar Vest­fjarða. Hinir slösuðu séu allir heima­menn.

Á áttunda tug manna komu að að­gerðunum í heildina í gær, þar af fimm­tíu á vett­vangi og við vett­vang. Hlynur Snorra­son, yfir­lög­reglu­þjónn lög­reglunnar á Vest­fjörðum, segist þó ekki geta gefið upp til­drög slyssins að svo stöddu. Málið sé í rann­sókn.

„Það er snjó­laust hérna, en í gær og í dag er ísing á vegi. Þannig að hann er að­eins hálli. En hvort það sé sam­verkandi þáttur verður bara að koma í ljós,“ segir Hlynur

Rýnifundur er á­ætlaður klukkan þrjú í dag fyrir alla þá sem komu að að­gerðunum í Hnífs­dal.