„Söfnunin hefur gengið þokka­lega. Það eru komnar þrjár milljónir – sem er auð­vitað frá­bært – en það vantar enn upp á,“ segir Hildur Torfa­dóttir, barns­móðir Gísla Finns­sonar sem hefur dvalið á sjúkra­húsi á Tor­revi­eja á Spáni undan­farnar vikur.

Gísli, sem er 35 ára þriggja barna faðir, fannst með­vitundar­laus utan dyra þann 21. ágúst síðast­liðinn eftir að hafa farið út með fé­lögum sínum að skemmta sér í Tor­revi­eja.

Fannst eftir viku leit

Að­stand­endur Gísla reyna nú eftir fremsta megni að koma honum heim til Ís­lands, en þar sem hann var ekki með ferða­tryggingu þurfa að­stand­endur sjálfir að standa straum af kostnaðinum. Var söfnun hrundið af stað í síðustu viku en það kostar 55 þúsund evrur, tæpar átta milljónir króna, að leigja sjúkra­flug­vél til að flytja hann frá Spáni til Ís­lands.

Frétta­stofa RÚV gerði málinu skil síðast­liðinn föstu­dag og þar kom fram að Kol­brún Gígja Björns­dóttir, barns­móðir Gísla, hefði fengið sím­tal frá kunningja hans um að eitt­hvað hefði komið upp á og Gísli væri mögu­lega á spítala. Frekari upp­lýsingar komu ekki fram og könnuðust spítalar ekki við að hafa fengið Gísla til sín. Það var svo eftir um viku leit að Gísli fannst á sjúkra­húsi eftir að borgara­þjónusta utan­ríkis­ráðu­neytisins hér á landi og lög­reglan ytri lögðu hönd á plóg.

Gísli hefur dvalið á háskólasjúkrahúsinu í Torrevieja síðustu vikurnar.
Mynd/Aðsend

Hlaut heila­skaða og ó­víst með bata­horfur

Elísa Finns­dóttir, systir Gísla, sagði í frétt RÚV að Gísli hafi verið búinn að vera í dái í um viku þegar að­stand­endum tókst loks að finna hann. Ljóst er að Gísli hlaut heila­skaða og sýnir hann afar lítil við­brögð þegar spænsku læknarnir ræða við hann. Annað er uppi á teningnum þegar ís­lenska er töluð því þá sýnir hann við­brögð.

Í sam­tali við Frétta­blaðið segir Hildur að mágur Gísla og frændi dvelji nú hjá honum. „Það þarf eigin­lega alltaf ein­hver að vera hjá honum. Læknarnir segja það svo mikil­vægt að það sé talað við hann á ís­lensku. Við reynum því að skiptast á en auð­vitað er það erfitt þar sem við erum öll í 100% vinnu og með börn,“ segir hún og bætir við að Gísli hafi verið á hægum bata­vegi en alls ó­víst sé um bata­horfur til lengri tíma.

Yfir­völd ekki sett sig í sam­band

„Hann hefur horast frá því að við vorum hjá honum. Hann fylgir strákunum, mági sínum og frænda, eftir með augunum og tárast þegar þeir tala við hann og spila fyrir hann tón­list,“ segir Hildur. Greint var frá söfnuninni síðast­liðinn föstu­dag og síðan þá hafa um þrjár milljónir króna safnast. Hildur segir að að­stand­endur séu mjög þakk­látir fyrir allan stuðninginn en þó svekktir yfir því að yfir­völd hafa ekki sýnt neinn vilja til að rétta fram hjálpar­hönd.

„Við ætlum ekki að halda þessari söfnun á­fram í næstu viku. Við ætlum að fá hann heim í lok vikunnar. “

„Yfir­völd hafa ekki sett sig í sam­band við okkur eins og við vorum búin að vona að myndi gerast eftir að fjallað yrði um málið í fjöl­miðlum. Við vorum að vísu búin að reyna þannig að við vorum ekkert of bjart­sýn. Við erum bara að stóla á fólkið í landinu,“ segir hún.

Ætla að fá hann heim í lok vikunnar

Á­stæða þess að að­stand­endur Gísla þurfa að bera allan kostnaðinn af flutningi hans til Ís­lands er sú að hann var ekki með ferða­tryggingu með kredit­korti. „Ef þú átt ekki kredit­kort er líka hægt að kaupa trygginguna sér­stak­lega. Þó hann hefði keypt hana veit maður ekki hvort hún hefði gilt því sam­kvæmt skil­málum fellur hún úr gildi ef þú ert undir á­hrifum á­fengis eða eitur­lyfja,“ segir Hildur.

Hildur segir að stefnt sé að því að koma Gísla heim áður en vikan er úti. „Við ætluðum okkur aldrei að setja þessa söfnun af stað. Við vorum búnar að vera í mánuð að leita allra ráða en án árangurs. Þannig að við­neyddumst eigin­lega bara til þess.“

Hildur segir að að­stand­endur hafi fengið þau svör að þegar Gísli kemur heim fari hann beint á Land­spítalann í rann­sóknir. Þaðan fari hann í endur­hæfingu á Grens­ás.

„Við ætlum ekki að halda þessari söfnun á­fram í næstu viku. Við ætlum að fá hann heim í lok vikunnar. Ef við segjum sem svo að við náum að safna fimm milljónum þá tökum við, ég og systir hans, yfir­drátt fyrir restinni,“ segir Hildur og bætir við að þær séu alveg tilbúnar að stefna sér í skuldir til að koma honum heim.

Hægt er að leggja söfnuninni lið með eftir­farandi ban­ka­upp­lýsingum, en reikningurinn er á kenni­tölu Hildar:

0511-14-025021
Kt: 300890-2109