Manni var vísað út af bráða­mótt­töku eftir að hann hafði verið þar til vand­ræða og neitað að verða við óskum starfs­fólks að yfir­gefa svæðið. Þetta kemur fram í dag­bók lög­reglu.

Þar segir að 97 mál hafi verið skráð hjá lög­reglu á milli 17:00 síð­degis í gær og 05:00 í morgun. Í gær voru málin hundrað talsins.

Lög­regla var meðal annars kölluð út í Vestur­bænum eftir að kona brenndist þegar heit djúp­steikinga­feiti skvettist á hana. Konan var flutt með sjúkra­bíl á bráða­mótt­töku með bruna­sár. Þá hafði lög­regla af­skipti af manni í mið­borginni sem ætlaði að aka bíl sínum ofur­ölvi.

Veg­far­endur í ná­grenni höfðu komið í veg fyrir að maðurinn æki af stað en þegar lög­regla reyndi að ræða við manninnn brást hann illa við og hafði í hótunum við hana. Hann var hand­tekinn og vistaður í fanga­klefa sökum hótana og á­stands þar sem hann var ekki í nokkru á­standi til að vera úti meðal fólks.

Þá féll kona á hlaupa­hjóli og fékk högg á höfuðið við fallið. Hún var flutt á bráða­mótt­töku af lög­reglu.

Lög­regla hafði af­skipti af manni sem var mjög ölvaður og hafði farið húsa­villt. Maðurinn var farinn að berja húsið allt að utan til að reyna að komast inn. Hann var fluttur á lög­reglu­stöð, þar sem rétt heimilis­fang var fundið og að því loknu ekið til síns heima.

Fimm öku­menn voru stöðvaðir í nótt fyrir ölvunar og eða fíkni­efna­akstur, auk þess sem lög­reglu barst sex há­vaða­út­köll í mið­borginni. Fimm há­vaða­kvartanir bárust saman­lagt í Hafnar­firði, Garða­bæ og Álfta­nesi og var annað ekki frétt­næmt að sögn lög­reglu.

Þá var lög­regla kölluð til í Kópa­vogi eftir að 16 ára ung­lingur hafði dottið á höfuðið. Drengurinn var öfurölvi og fluttur á bráða­mótt­töku með sjúkra­bíl. Þá var einn ölvaður öku­maður stöðvaur í hverfinu og þar og í Breið­holti barst lög­reglu sam­tals þrjú há­vaða­út­köll.

Lög­regla segir ekkert frétt­næmt hafa gerst í Grafar­vogi, Mos­fells­bæ og Árbæ milli klukkan 17:00 síð­degis í gær og 05:00 í morgun.