Matar- og kaffitímar, svokallaðir óvirkir vinnutímar, eru til skoðunar hjá Landspítalanum til þess að geta stytt vinnutíma án þess að skerða þjónustu eða hækka launakostnað stofnunarinnar.

Vinnutímastytting í dagvinnu tekur gildi hjá ríkisstofnunum þann 1. janúar 2021 og stytting vinnutíma í vaktavinnu tekur gildi 1. maí. Útfærslan á styttingu vinnutíma verður með ólíkum hætti eftir því hvort fólk vinnur í hefðbundinni dagvinnu eða vaktavinnu.

Ásta Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Landspítalanum, segir hugsanlegt að starfsfólk Landspítala þurfi að afsala sér forræði að matarhléum.

Ávallt heimilt að fá sér að borða

„Ég vil samt taka skýrt fram að það er gert ráð fyrir í kjarasamningum að það verði ávallt heimilt að fara og fá sér kaffi og fá sér að borða. Ef að niðurstaðan verður sú að matar- og kaffitímar verði felldir út til að ná þessari hámarksstyttingu, sem getur verið í boði, að þá eru menn ekki að fara að svelta heilu hungri heldur í rauninni eingöngu að afsala sér ákveðnu forræði að þessum neysluhléum. Líkt og læknar hafa reyndar gert,“ segir Ásta.

„Við þurfum að fara í ákveðið samráðsferli og finna leið sem getur best komið til móts við þann fjölbreytileika sem er í hinum ólíku einingum á Landspítala,“ segir Ásta og íttrekar mikilvægi þess að eitt gildi fyrir alla.

Hjá ríkinu starfa um tuttugu þúsund manns á um 150 stofnunum og er Landspítali stærsti vinnustaður landsins með hátt í 6000 starfsmenn. Af þeim eru 3000 dagvinnumenn á Landspítalinn.

Verkefnið „Betri vinnutími“ hefur það að markmiði að bæta lífskjör og auðvelda samræmi á milli vinnu og einkalífs. Það felur í sér að lágmarki 13 mínútna styttingu á dag, að hámarki 4 klukkustundir á viku að því er fram kemur í tilkynningu Landspítalans.

Frétt hefur verið uppfærð 11. september klukkan 16:04 með eftirfarandi athugasemd frá Landspítala:

Landspítali vill að gefnu tilefni árétta að samráðsferli kringum þetta mál og kynning gagnvart starfsfólki er rétt að hefjast. Ferlið byggir á verkefni sem samið var um af aðilum vinnumarkaðarins, samtökum launafólks og hinu opinbera í nýgerðum kjarasamningum. Engar ákvarðanir verða teknar um matar- og kaffitíma á Landspítala fyrr en í kjölfar atkvæðagreiðslu þar sem starfsfólk í dagvinnu velur sjálft á milli mismunandi leiða til að stytta vinnuvikuna. Landspítali vinnur hörðum höndum að því að bæta hag og kjör starfsfólks, en mikilvægt er þó að muna að íslenska ríkið er launagreiðandi starfsfólks og hinn eiginlegi viðsemjandi samtaka þess og annarra aðila vinnumarkaðarins.

FRÉTT // Stytting vinnutímans framundan from Landspítali on Vimeo.