Til greina kemur að setja knæpum og skemmti­stöðum há­vaða­tak­markanir á stöðunum til að bregðast við frekari smitum þar. Þetta er meðal þess sem fram kom á upp­lýsinga­fundi al­manna­varna í dag.

„Það á eftir að út­færa hvaða tak­markanir þetta verða. Þetta er auð­vitað eitt af því sem er hægt að skoða,“ segir Alma Möller, land­læknir.

Víðir Reynis­son, yfir­lög­reglu­þjónn, segir al­manna­varnir hafa fundað með heil­brigðis­eftir­liti Reykja­víkur og segir að há­vaða­tak­markanir séu til skoðunar.

Þá var Víðir spurður að því hvort mikið hefði verið um að fólk virti að vettugi að mæta í seinni skimun. Hann sagði svo ekki vera. Enn væri traust til staðar. Flest brot á sótt­kvíar­reglum væru gerð vegna van­skilnings en ekki ein­beitts brota­vilja.

„Það er oft þá ein­hver mis­skilningur eða fólk heldur að það þyrfti að borga fyrir þetta. Við reynum að fylgjast með eins og hægt er en í þessu eins og öðru byggir þetta á trausti. Og ég held að það sé til staðar enn­þá.“

Rann­sóknir á lof­ræsti­kerfum á frum­stigi

Þá var Alma spurð út í loft­ræsti­kerfi og rann­sóknir á dreifingu veirunnar í gegnum þau. Hún segir þær á frum­stigi, en ljóst að tekið verður mið af kórónu­veirunni við hönnun fram­tíðar loft­ræsti­kerfa.

„Það komu rann­sóknir í vetur. Þetta er á frum­stigi en ég held við munum læra mjög mikið um þetta og ég held þetta muni hafa á­hrif á hönnun loft­ræsti­kerfa til fram­tíðar.

Alma segir að á­kvarðanir um breytingar á til­högun landa­mæra­eftir­lits og skimunar verði kynntar þann 6. októ­ber, ef þær verða þá ein­hverjar. Það sé Þór­ólfs að kynna það.

„Þetta er auð­vitað til sí­felldrar skoðunar en það er ekki fyrr en 6 októ­ber sem það munu koma ný til­mæli og það er ekki okkar að kynna það. En ég held að allir séu að hugsa um það hversu mikil­vægt það er að halda smitum niðri en með sem minnstri röskun á dag­legt líf og skóla­líf og efna­hags­líf. Það eru aðrir aðilar betur til þess bærir að meta stöðuna og ég veit að það er mikil vinna í gangi hjá ráðu­neytum.“