Haneen Hos­sam, tví­tug TikTok stjarna, hefur verið hand­tekin í Egypta­landi að­eins tveimur dögum eftir að hún var dæmd í tíu ára fangelsi fyrir man­sal. BBC greinir frá.

Hos­sam var fjar­verandi við réttar­höldin í Kaíró en hin 23 ára Mawada al-Adham, sem einnig er TikTok á­hrifa­valdur, var við­stödd og var hún dæmd til sex ára fangelsis­vistar fyrir sömu sakir. Hos­sam og al-Adham er gefið að sök að hafa mis­notað stúlkur fyrir fé í gegnum TikTok og önnur mynd­bands­for­rit.

Úr­skurðurinn kemur fimm mánuðum í kjöl­far þess að réttur í Egypta­landi sneri við dómi sem þær hlutu fyrir að hafa „brotið gegn fjöl­skyldu­gildum“ með mynd­böndum sem þær deildu á TikTok.

Hos­sam birti mynd­band á mánu­dag þar sem hún biðst vægðar og segist aldrei hafa skaðað neinn. Mann­réttinda­frömuðir segja að mál­sóknin á hendur konunum sé liður í her­ferð egypskra yfir­valda gegn kven­kyns á­hrifa­völdum á sam­fé­lags­miðlum og lýsa á­kærunum á hendur þeim sem broti á tjáningar­frelsi, jafn­rétti, frið­helgi til einka­lífs og líkam­legs á­kvörðunar­rétts.

Dæmdar í tveggja ára fangelsi fyrir TikTok mynd­bönd

Hos­sam er nemandi við Há­skólann í Kaíró og er með um það bil 900.000 fylgj­endur á TikTok. Hún var fyrst hand­tekin í apríl 2020 eftir að hún birti mynd­band þar sem hún hvatti kven­kyns fylgj­endur sína til að stofna að­gang á mynd­band­for­ritinu Likee og sagði að hægt væri að græða pening með því að birta mynd­bönd þar. Sak­sóknarar á­kærðu hana fyrir að „brjóta gegn hefð­bundnum fjöl­skyldu­gildum“.

Adham, sem var eitt sinn með þrjár milljónir fylgj­enda á TikTok og er með 1,4 milljónir fylgj­enda á Insta­gram, var á­kærð fyrir sömu sakir skömmu síðar eftir að hún birti mynd­bönd af sér að dansa og syngja með þekktum lögum sem sak­sóknarar lýstu sem „ó­sið­legum“.

Þær voru dæmdar í tveggja ára fangelsi síðast­liðinn júlí og gert að greiða háa sekt en í janúar var dómnum snúið við og þær látnar lausar í kjöl­farið. Nýjum kæru­lið fyrir man­sal var síðan bætt við á­kæru þeirra og voru þær dæmdar til áður­nefndrar fangelsis­vistar á þeim for­sendum síðast­liðinn sunnu­dag.

Ætla að á­frýja dómnum

Lög­maður Hos­sam, Hani Sam­eh, segir að hann muni á­frýja dómnum og krefjast endur­reisnar æru skjól­stæðings síns.

„Við vonum að fangelsis­vist hennar verði stytt eða hún verði sýknuð“, segir Sam­eh í sam­tali við blaða­menn.

Hos­sam lýsir niður­stöðunni sem á­falli í mynd­bandi sem hún birti á Insta­gram áður en hún var hand­tekin.

„Tíu ár! Ég gerði ekkert ó­sið­legt til að verð­skulda allt þetta! Ég var fangelsuð í tíu mánuði og sagði ekki orð eftir mér var sleppt… Af hverju viljið þið fangelsa mig aftur?“ segir Hos­sam í mynd­bandinu.