Tónlistarkonan Unnur Sara Eldjárn á og rekur kynningarstofuna Wrap my Music sem tekur að sér ráðgjöf við markaðssetningu fyrir tónlistarfólk.

Hún sagði frá því á Facebook-síðu sinni að TikTok hefði greitt henni fyrir notkun á tónlist, og sagði upphæðina töluvert hærri en þá sem hún fékk frá streymisveitunni YouTube, „þrátt fyrir ágætis spilun þar í hverjum mánuði.“ Hún deilir kvittun frá TikTok þar sem taldar eru 1.833 íslenskar krónur í greiðslu fyrir notkun á tónlist síðustu þrjá mánuði.

„Maður hélt að TikTok væri bara frábær auglýsing,“ segir Unnur Sara og bætir við að greiðslan hafi komið mikið á óvart. Hún segist ekki hafa fengið sundurliðun eða upplýsingar um fjölda spilana að baki upphæðinni, en hún segir að um þúsund myndbönd séu á miðlinum þar sem notast er við hennar tónlist.

„Það kom mér á óvart að sjá að ég væri að fá meira frá TikTok en YouTube og Facebook, sem er líka með Instagram. Á Instagram er ég með 1.500 myndbönd, samt er ég að fá tíkalla þar. Mér finnst það benda til þess að þau borgi betur á TikTok, miðað við þessar upplýsingar.“