Tíkin Lily Roma, sem er svört labrador og border collie blendingstík, hvarf sporlaust fyrir utan verslunina Súper 1 við Hallveigarstíg í dag. Eigendur hennar telja að henni hafi verið stolið.

Ylfa Marín Haraldsdóttir greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni. Tíkin er í eigu föður hennar. Hún segir að faðir hennar taki hundinn oft með sér út í búð, og í þetta skipti hafi hann rétt skroppið inn, en að tíkin Lily hafi hvergi verið sjáanleg þegar hann kom aftur út. „Hún er alls ekki strokuhundur,“ segir Ylfa í samtali við Fréttablaðið. „Hún og pabbi eru alveg bestu vinur.“

Ylfa segir að þau hafi leitað Lily frá því að hún hvarf. „Pabbi er búinn að labba um allt og kalla á hana. Hún svarar alltaf kalli þannig þetta er mjög skrítið,“ segir hún. Sjálf er Ylfa akandi um Þingholtshverfið að leita af tíkinni.

Að svo stöddu hafa þau ekkert orðið hennar vör, þrátt fyrir fjölda ábendinga. „Við höfum fengið ábendingar sem hafa ekki reynst vera hún Lily heldur bara svipaðir hundar. Við erum samt æðislega þakklát fyrir hvað fólk er tilbúið að hjálpa okkur,“ segir hún. „Lily er mikilvæg í lífinu hans pabba svo við söknum hennar mjög.“

Ylfa óskar eftir því að hver sem kann að vita um tíkina Lily hafi samband við sig í síma 847-8891.

Uppfært:

Tíkin er fundin.