Hundur sem hvarf frá heimili sínu í Bolungar­vík á þrettándanum fannst heil á húfi í kvöld eftir að hafa verið á hrak­hólum í tuttugu daga.

Bor­der Colli­e tíkin Píla fældist vegna flug­elda og slapp frá heimili sínu í Bolungar­vík þann 6. janúar síðast­liðinn. Leit hefur staðið að henni síðan og hafa meðal annars björgunar­sveitar­menn og sjálf­boða­liðar á vegum fé­lagsins Dýr­finnu tekið þátt í leitinni.

Ekkert hafði spurst til hennar fyrr en síð­degis í dag þegar kaja­kræðari taldi sig hafa séð hana á syllu uppi í fjalli. Í kjöl­farið var dróni sendur til að kanna málið nánar og stað­festi að þar væri Píla fundin tuttugu dögum eftir að hún týndist.

Í kringum tuttugu björgunar­sveitar­menn úr Bolungar­vík, Hnífs­dal og Ísa­firði lögðu af stað í kvöld til að ná í Pílu en að­stæður við fjallið voru mjög erfiðar, mikill snjór og hálka sem gerði björgunar­aðilum erfitt fyrir.

Hún fannst þó að lokum heil á húfi og að sögn Söndru Ósk Jóhanns­dóttur hjá Dýr­finnu er vonast til þess að hægt sé að koma henni niður af fjallinu fyrir mið­nætti. Myndband af því þegar björgunarsveitarmaður heilsar upp á Pílu má sjá hér.

Hvarf Pílu vakti mikla at­hygli út um land allt. Stofnaður var sér­stakur hópur um leitina á Face­book sem telur nú nærri 500 manns. Margir tóku þátt í leitinni og svipuðust um eftir Pílu en það reyndist þó þrautin þyngri að hafa upp á henni þar til í dag.