Hundur sem hvarf frá heimili sínu í Bolungarvík á þrettándanum fannst heil á húfi í kvöld eftir að hafa verið á hrakhólum í tuttugu daga.
Border Collie tíkin Píla fældist vegna flugelda og slapp frá heimili sínu í Bolungarvík þann 6. janúar síðastliðinn. Leit hefur staðið að henni síðan og hafa meðal annars björgunarsveitarmenn og sjálfboðaliðar á vegum félagsins Dýrfinnu tekið þátt í leitinni.
Ekkert hafði spurst til hennar fyrr en síðdegis í dag þegar kajakræðari taldi sig hafa séð hana á syllu uppi í fjalli. Í kjölfarið var dróni sendur til að kanna málið nánar og staðfesti að þar væri Píla fundin tuttugu dögum eftir að hún týndist.
Í kringum tuttugu björgunarsveitarmenn úr Bolungarvík, Hnífsdal og Ísafirði lögðu af stað í kvöld til að ná í Pílu en aðstæður við fjallið voru mjög erfiðar, mikill snjór og hálka sem gerði björgunaraðilum erfitt fyrir.
Hún fannst þó að lokum heil á húfi og að sögn Söndru Ósk Jóhannsdóttur hjá Dýrfinnu er vonast til þess að hægt sé að koma henni niður af fjallinu fyrir miðnætti. Myndband af því þegar björgunarsveitarmaður heilsar upp á Pílu má sjá hér.
Hvarf Pílu vakti mikla athygli út um land allt. Stofnaður var sérstakur hópur um leitina á Facebook sem telur nú nærri 500 manns. Margir tóku þátt í leitinni og svipuðust um eftir Pílu en það reyndist þó þrautin þyngri að hafa upp á henni þar til í dag.
Vonast er að hægt sé að koma Pílu niður fyrir miðnætti. Píla var föst í 100 til 200 metra hæð í klettum úti frá Stigahlíð. Um 20 björgunarsveitarmenn frá Bolungarvík, Hnífsdal og Ísafirði eru að standa sig og erum við að stofna sameiginlegan reikning sem fólk getur lagt inn. 🥰
— Sandra Ósk Jóhannsdóttir (@sandra_johanns) January 26, 2022