Joe Exotic, tígri­s­kóngurinn sem var árið 2020 dæmdur í 22 ára fangelsi fyrir til­raun til leigumorðs, gæti átt von á því að hann sleppi fyrr úr fangelsi en á­frýjunar­dóm­stóll í Den­ver hefur komist að þeirri niður­stöðu að rangt hafi verið reiknað um lengd fangelsis­vistar hans.

Á­frýjunar­dóm­stóllinn hefur nú krafist þess að dóm­stólar endur­á­kveði refsingu tígri­s­kóngsins þar sem við á­kvörðun refsingarinnar hefði átt að taka til­lit til þess að tvær sak­fellingar gegn honum voru í sama máli. Að því er kemur fram í frétt AP News hefði refsi­ramminn átt að vera milli 17 og hálft ár til tæp­lega 22 ár, en ekki tæp­lega 22 ár til 27 ár líkt og gert var.

Bað Trump um náðun

Exotic vakti heims­at­hygli árið 2020 þegar sjón­varps­þættirnir Tiger King voru sýndir á Net­flix en þar var fylgst með hvers­dags­legu lífi tígri­s­kóngsins í dýra­garði hans. Að mestu leiti sneru þættirnir þó að deilum Exotic við dýra­verndunar­sinnann Carole Baskin og hat­römm sam­skipti þeirra á milli.

Í lok þáttanna var sýnt hvernig Exotic var dæmdur í fangelsi, meðal annars fyrir að reyna að ráða menn til að drepa Baskin. Exotic hefur í­trekað reynt að fá dómnum snúið og leitaði til að mynda nokkrum sinnum til Donald Trump, þá­verandi Banda­ríkja­for­seta, í von um náðun en hann sóttist sjálfur eftir em­bætti for­seta árið 2016 og em­bætti ríkis­stjóra Okla­homa árið 2018, án árangurs.