Tígris­dýr sem var saknað í viku fannst í út­hverfi í Hou­ston Texas um helgina. Tígris­dýrið, sem ber nafnið India og er sjö mánaða Bengal tígur, var af­hent lög­reglu á laugar­daginn og er sögð vera við góða heilsu.

Mynd­band af Indíu á vappinu í Hou­ston fór eins og eldur í sinu í síðast­liðinni viku og höfðu margir á­hyggjur af því að tígris­dýr væri laust í borginni.

Lög­regla fékk loks til­kynningu um dýrið síðast­liðinn laugar­dag en þegar hún kom á vett­vang sást tígris­dýrið vera fært um borð í pall­bíl. Lög­reglan elti bílinn en missti sjónar á honum eftir stutta eftir­för.

Eigandinn á skilorði

Meintur eig­andi dýrsins, Hugo Cu­evas, var hand­tekinn degi síðar fyrir að hlýða ekki til­mælum lög­reglu og forðast hand­töku. Þegar at­vikið átti sér stað var Cu­evas á skil­orði vegna morð­á­kæru.

Lög­maður Cu­evas heldur því fram að tígris­dýrið sé ekki í eigu Cu­evas en að skjól­stæðingur hans hafi oft séð um dýrið.

Ekki heimilisdýr

Ekki liggur fyrir hvar tígris­dýrið hefur verið síðast­liðna viku en Ron Borza, varð­stjóri lög­reglunnar í Hou­ston, sagði lík­legt að dýrið hefði verið látið flakka á milli vina eig­andans. „Svona dýr eru alls ekki heimilis­dýr,“ sagði Borza. Dýrið sé að­eins níu mánaða en er nú þegar 80 kíló að þyngd.

„Sem betur fer fyrir okkur er hún mjög gæf,“ benti Borza á. Indía var færð í dýra­at­hvarf í gær þar sem hún mun lifa til fram­búðar í öruggu um­hverfi.