Bandaríski kylfingurinn, Tiger Woods, er á góðum batavegi eftir að hafa gengist undir langa aðgerð síðastliðinn þriðjudag eftir bílveltu í Los Angeles.

Þetta kemur fram í tísti frá samskiptateymi golfkappans á Twitter.

Woods var fluttur á Cedars-Sinai heilsugæsluna eftir aðgerðina þar sem hann hefur verið í endurhæfingu.

„Endurhæfingin hefur gengið vel hingað til og hann er nú á batavegi og líður vel. Woods og fjölskylda hans þakka stuðninginn og kveðjurnar sem þeim hafa borist síðustu daga," segir í tístinu.

Woods, sem er einn besti kylfingur allra tíma, var klipptur úr bíl sinnum í Los Angeles á þriðjudag eftir að hafa velt honum. Hann var einn í bílnum þegar slysið varð. Samkvæmt lögreglumönnum, sem fyrstir komu að slysinu var hann með rænu og afar rólegur þrátt fyrir að hafa setið fastur í bílnum. Hann var í bílbelti og ekki undir áhrifum áfengis né lyfja.

Woods er sagður heppinn að hafa sloppið lifandi frá bílveltunni en beita þurfti klippum til að losa hann úr bílnum.
Fréttblaðið/ Getty images.

Tiger fór í aðgerð strax efitr slysið vegna meiðsla á hægri sköflungi og var meðal annars skrúfa sett í sköflunginn til að minnka skaðann.