Sprenging hefur orðið á fjölda Ís­lendinga sem fá á­vísað megrunar­lyfjum sem fyrst komu á markað hér á landi árið 2018. Á fjórum árum hefur notkunin nær tí­faldast en árið 2018 fengu 897 ein­staklingar hér á landi á­vísað lyfjunum en árið 2022 voru þeir orðnir 8964.

Þetta kemur fram í svörum Em­bættis land­læknis við fyrir­spurn Frétta­blaðsins. Um er að ræða lyfin Saxenda, Ozempic og Viscosa sem annars vegar er á­vísað við sykur­sýki og hins vegar við of­fitu, að því er segir í svörum Land­læknis.

Lyfin inni­halda sema­glú­tíð og er þeim sprautað í kvið, læri eða upp­hand­legg. Þau líkja eftir náttúru­lega hormóninu GLP-1 sem losað er úr þörmum eftir mál­tíðir og hefur marg­vís­leg á­hrif á stjórnun glú­kósa og matar­lyst. Al­gengar auka­verkanir eru ó­gleði og upp­köst og getur lyfið orðið til þess að not­endur þess fái gall­steina. Geta er­lendir miðlar þess að ein­hverjir upp­lifi öldrun í and­liti við notkun lyfjanna sökum fitutaps.

Vin­sældir slíkra lyfja hafa snar­aukist í Banda­ríkjunum, að því er er­lendir miðlar líkt og New York Times og The At­lantic greina frá. „Það eru allir annað­hvort á þessu eða að spyrja hvernig þeir komast á þetta,“ hefur New York Times eftir lækninum Paul Jar­rod Frank. Hann segist ekki muna eftir við­líka um­tali um lyf síðan Viagra kom á markað í fyrsta sinn.

Sambærileg lyf hafa verið til um áratuga skeið og hafa verið notuð til meðhöndlunar á sykursýki. Ozempic kom hinsvegar á markað árið 2017 og uppgötvaði framleiðandi þess danska lyfjafyrirtækið NovoNordisk fljótlega að notkun þess fylgdi mikið þyngdartap. Var lyfið endurútgefið undir nafninu Wegovic í Bandaríkjunum og þá markaðssett sem grenningarlyf.

Skortur á lyfjum vegna á­sóknar

Í um­fjöllun The At­lantic kemur fram að banda­rískir læknar hafi á­hyggjur af mikilli á­sókn í megrunar­lyfin, meðal annars sökum sam­fé­lags­miðla líkt og TikTok.

Upp kom sú staða í lok desember í Los Angeles að sykur­sýkis­sjúk­lingar gátu ekki keypt Ozempicvegna mikillar á­sóknar í lyfin. Þannig gerir ein sviðs­mynd Morgan Stanl­ey banka ráð fyrir því að markaður með lyfin muni velta 30 milljörðum Banda­ríkja­dollara árið 2030.

Í svörum Land­læknis til Frétta­blaðsins um notkun lyfjanna á Ís­landi kemur fram að landið sé ekki eftir­bátur ná­granna sinna í vestri. Hér á landi eru þrjú megrunar­lyf með markaðs­leyfi, Saxenda, Ozempic og Victosa.

Árið 2018 fengu 897 manns lyfjunum á­vísað hér á landi, árið 2019 urðu þeir 1695, árið 2020 urðu þeir 3.059, 5446 árið 2021 og í fyrra voru 8964 manns á megrunar­lyfjum á Ís­landi. Frétta­blaðið hefur sent Land­lækni fyrir­spurn um hvort til séu verk­ferlar eða til­mæli til lækna þegar á­kvörðun er tekin um á­vísun lyfjanna hér á landi.