Sprenging hefur orðið á fjölda Íslendinga sem fá ávísað megrunarlyfjum sem fyrst komu á markað hér á landi árið 2018. Á fjórum árum hefur notkunin nær tífaldast en árið 2018 fengu 897 einstaklingar hér á landi ávísað lyfjunum en árið 2022 voru þeir orðnir 8964.
Þetta kemur fram í svörum Embættis landlæknis við fyrirspurn Fréttablaðsins. Um er að ræða lyfin Saxenda, Ozempic og Viscosa sem annars vegar er ávísað við sykursýki og hins vegar við offitu, að því er segir í svörum Landlæknis.
Lyfin innihalda semaglútíð og er þeim sprautað í kvið, læri eða upphandlegg. Þau líkja eftir náttúrulega hormóninu GLP-1 sem losað er úr þörmum eftir máltíðir og hefur margvísleg áhrif á stjórnun glúkósa og matarlyst. Algengar aukaverkanir eru ógleði og uppköst og getur lyfið orðið til þess að notendur þess fái gallsteina. Geta erlendir miðlar þess að einhverjir upplifi öldrun í andliti við notkun lyfjanna sökum fitutaps.
Vinsældir slíkra lyfja hafa snaraukist í Bandaríkjunum, að því er erlendir miðlar líkt og New York Times og The Atlantic greina frá. „Það eru allir annaðhvort á þessu eða að spyrja hvernig þeir komast á þetta,“ hefur New York Times eftir lækninum Paul Jarrod Frank. Hann segist ekki muna eftir viðlíka umtali um lyf síðan Viagra kom á markað í fyrsta sinn.
Sambærileg lyf hafa verið til um áratuga skeið og hafa verið notuð til meðhöndlunar á sykursýki. Ozempic kom hinsvegar á markað árið 2017 og uppgötvaði framleiðandi þess danska lyfjafyrirtækið NovoNordisk fljótlega að notkun þess fylgdi mikið þyngdartap. Var lyfið endurútgefið undir nafninu Wegovic í Bandaríkjunum og þá markaðssett sem grenningarlyf.
Skortur á lyfjum vegna ásóknar
Í umfjöllun The Atlantic kemur fram að bandarískir læknar hafi áhyggjur af mikilli ásókn í megrunarlyfin, meðal annars sökum samfélagsmiðla líkt og TikTok.
Upp kom sú staða í lok desember í Los Angeles að sykursýkissjúklingar gátu ekki keypt Ozempicvegna mikillar ásóknar í lyfin. Þannig gerir ein sviðsmynd Morgan Stanley banka ráð fyrir því að markaður með lyfin muni velta 30 milljörðum Bandaríkjadollara árið 2030.
Í svörum Landlæknis til Fréttablaðsins um notkun lyfjanna á Íslandi kemur fram að landið sé ekki eftirbátur nágranna sinna í vestri. Hér á landi eru þrjú megrunarlyf með markaðsleyfi, Saxenda, Ozempic og Victosa.
Árið 2018 fengu 897 manns lyfjunum ávísað hér á landi, árið 2019 urðu þeir 1695, árið 2020 urðu þeir 3.059, 5446 árið 2021 og í fyrra voru 8964 manns á megrunarlyfjum á Íslandi. Fréttablaðið hefur sent Landlækni fyrirspurn um hvort til séu verkferlar eða tilmæli til lækna þegar ákvörðun er tekin um ávísun lyfjanna hér á landi.