Horfur eru á að minnst 72 farþegaskip komi til Faxaflóahafna í sumar með um 33 þúsund farþega, en það er margföldun frá því á síðasta sumri þegar 7 skemmtiferðaskip köstuðu þar akkerum með 1.346 farþegum.

„Bókanir það sem af er sumri hafa verið langt umfram væntingar,“ segir Erna Kristjánsdóttir, markaðsog gæðastjóri Faxaf lóahafna, en hún kveðst allt eins eiga von á því að skipakomurnar verði tíðari en bókanirnar, sem þegar eru skráðar, gefa til kynna.

Í fjárhagsáætlun Faxaflóahafna fyrir árið 2021 var ekki gert ráð fyrir miklum tekjum af skipakomum farþegaskipa og byggir sú áætlun á niðurstöðum ársins 2020 því ekki var vitað hvernig heimsfaraldurinn myndi þróast.

„Það sem breyttist núna í ár var að mun færri skipafélög afbókuðu ferðir sínar til Íslands samanborið við síðasta sumar, segir Erna og bætir við: „Þar fyrir utan er mjög gleðilegt hversu vel hefur gengið með sóttvarnir við skipakomurnar í ár og hversu fá smit hafa komið þar upp.“

Skipin sem koma í ár til landsins eru, að sögn Erlu, litlu og miðlungsstóru farþegaskipin sem komast í flestar hafnir landsins. Allir farþegar þeirra koma með flugi í gegnum Keflavíkurflugvöll og eru fullbólusettir og nýskoðaðir, en farþegar og áhöfn eru svo prófuð dag hvern.

„Stjórnendur skipanna hafa staðið sig með sóma í smitvörnum,“ segir Erna.