Í nýrri skýrslu um samskipti Íslands og Færeyja sem unnin var af starfshópi skipuðum af Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, fyrr á þessu ári, eru lagðar fram 30 tillögur til að efla tengsl þjóðanna tveggja.

Guðlaugur Þór segir í skýrslunni að í ráðherratíð sinni hafi hann lagt áherslu á samskipti Íslands og Færeyja og beitt sér fyrir því að viðhalda sterkum tengslum þeirra á milli. „Hagsmunir okkar sem fámennra eyþjóða fara oft saman og samvinna í hagsmunagæslu er báðum til hagsbóta. Þá má ekki gleyma að í gildi er fríverslunarsamningur milli Íslands og Færeyja,“ segir Guðlaugur og vísar þar til Hoyvíkursamningsins, víðtækasta fríverslunarsamnings sem Ísland hefur gert.

Tillögurnar sem lagðar eru fram í skýrslunni snúa meðal annars að samgöngum, nýsköpun og menningu. Í skýrslunni eru lagðar til tíðari flugsamgöngur landanna tveggja á milli, sem sagðar eru hafa jákvæð áhrif á samskipti Íslands og Færeyja á sviði ferðaþjónustu og vöruflutninga og á almenn samskipti einstaklinga og fyrirtækja.

„Lagt er til að stjórnvöld beiti sér fyrir gerð fýsileikakönnunar á auknum flugsamgöngum milli Íslands og Færeyja, í samstarfi við þau flugfélög sem nú sinna flugi á milli landanna,“ segir í skýrslunni. Þá eru þar einnig lagðar til auknar farþegasiglingar og mögulegar siglingar til hafna á suðvesturhorni Íslands.

Tillögur um aukið samstarf á sviði viðskipta, heilbrigðismála og menntamála er einnig að finna í skýrslunni. Þar er lagt til að heilbrigðisyfirvöld í löndunum geri úttekt á því á hvaða sviðum og með hvaða hætti megi auka nýtingu Færeyinga á heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa á Íslandi.

„Í gildi er almennur samningur milli LSH og Heilsumálaráðs Færeyja um heilbrigðisþjónustu. Það virðist hins vegar sem svo að samstarf á öðrum vettvangi hafi dregist saman, til dæmis á sviði lækninga eða meðferða utan sjúkrahúsa,“ segir í skýrslunni. Þá er lagt er til að heilbrigðisráðuneytið ásamt heilbrigðisyfirvöldum í Færeyjum geri úttekt á því á hvaða sviðum og með hvaða hætti megi auka nýtingu Færeyinga á heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa á Íslandi.

Á sviði menntamála er meðal annars lagt til að hið opinbera, félagasamtök og einkaaðilar fjármagni vísinda- og menntasjóð, að mótaðar verði stuttar skiptinemaáætlanir á framhaldsskólastigi og að útbúið verði námsefni fyrir grunnskóla þar sem fjallað yrði um Færeyjar með heildstæðum hætti og lögð áhersla á tengsl Íslands og Færeyja.

Starfshóp utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra skipuðu Júlíus Hafstein sem jafnframt var formaður, Elin Svarrer Wang, Gísli Gíslason og Sif Gunnarsdóttir. Starfsmaður hópsins var Andri Júlíusson.