Fimmtugur karlmaður var skotinn til bana um helgina í borginni Rochester í New York-fylki Bandaríkjanna. Morðið átti sér stað við Íslandsgarð (e. Iceland Park) og Jefferson Avenue. Ekki er um að ræða fyrstu skotárásina sem á sér stað við Íslandsgarð.

Svæðismiðilar greina frá málinu, en þar segir að lögreglan vestanhafs hafi fengið tilkynningu um bílslys og í kjölfarið skotárás. Einn lét lífið á spítala eftir að hafa fengið skot í kviðinn. Um var að ræða fimmtugan karlmann sem hét William Booker, sem hafði starfað sem lögregluþjónn um árabil, en lét af störfum árið 2017. Hann var sérstakur skóla-lögregluþjónn, sem hafði það verk að beina börnum frá ofbeldi.

Íslandsgarður, er að myndum og kortum að dæma heldur lítil gata. Þrátt fyrir það hafa, samkvæmt svæðismiðlum, nokkrar skotárásir átt sér stað vit götuna á síðustu árum.

Frá götuhorni Íslandsgarðs og Jefferson Avenue.
Skjáskot/Google Maps

Í júlí árið 2020 var maður skotinn við Íslandsgarð og Jefferson Avenue. Greint var frá því að búist væri við því að maðurinn myndi lifa árásina af, en ekki var búið að finna byssumanninn.

Í febrúarmánuði árið 2018 voru tveir menn skotnir við Íslandsgarð og Jefferson Avenue. Svæðismiðlar sögðu að annar maðurinn væri mjög illa haldinn, en hinn væri í betra ástandi.

Og í desember árið 2016 var maður fluttur á sjúkrahús eftir að hann var skotinn í fótinn í Íslandsgarði. Svo virðist sem ekkert hafi verið greint frekar frá rannsókn lögreglu, eða öðrum nýjum vendingum í þessum þremur síðarnefndu málum.

Íslandsgarður, er að myndum og kortum að dæma heldur lítil gata.
Skjáskot/Google Maps