Fjöl­margar til­kynningar um bíl­veltur hafa borist lög­reglunni á Suður­nesjum í vikunni en þetta kemur fram í til­kynningu lög­reglunnar frá því í dag.

Þar kemur fram að bíl­velta hafi orðið við gatna­mót Hring­brautar og Heiðar­bergs á Reykja­nesi í morgun og endaði bíllinn sex metra utan vegar. Far­þegar bílsins sluppu án meiðsla en bíllinn reyndist vera ó­tryggður og voru því skráningar­merkin tekin.

Þá valt annar bíll við Reykja­nes­braut í gær en öku­maðurinn hafði þá misst stjórn á bílnum. Bíllinn fór tvær veltur og endaði um 76 metrum frá því að öku­maður missti stjórnina. Maðurinn komst sjálfur út en sagðist finna mikið til í hálsi og baki þegar lög­regla kom á vett­vang og var því fluttur á spítala.

Tveir bílar keyrðu þar að auki út af Grinda­víkur­vegi. Annar þeirra er grunaður um að keyra undir á­hrifum á­fengis en hinn öku­maðurinn sagði hálku hafa valdið því að hann missti stjórn og slapp hann án meiðsla.

Enn fremur kemur fram í til­kynningunni að nokkuð hafi verið um það að öku­menn hafi keyrt utan í kyrr­stæða bíla og stungið síðan af.