Þýski lyfjarisinn Bayer hefur fengið lögbann á samheitalyf íslenska lyfjafyrirtækisins Williams & Halls og var staðfestingarmál tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í vikunni. Williams & Halls setti hjartalyfið Rivaroxaban, samheitalyf Xarelto, á markað í byrjun árs en lögbann var sett á í sumar.

„Við náðum að stöðva þetta í byrjun júní. Krafa Bayer er að einkaleyfið gildi hér á landi,“ segir Árni Vilhjálmsson, lögmaður Bayer. „Verði lögbannið staðfest er bótaréttur væntanlega til staðar fyrir Bayer.“

Málið er þó ekki komið á það stig að verið sé að reikna út upphæðir bóta. Er málið nokkur nýlunda því þetta er í fyrsta skipti sem lögbann er lagt á samheitalyf hér á landi.

Bitbeinið í málinu er svokallað ábendingareinkaleyfi, til þess að auka við 25 ára grunneinkaleyfi. Slíkt einkaleyfi fékk Bayer hjá EPO, Einkaleyfastofnun Evrópu, árið 2015, en það var afturkallað árið 2018. Áfrýjunarmál þess efnis er í áfrýjunarferli. Bayer fékk hins vegar ekki grunneinkaleyfi hér.

Torfi Rafn Halldórsson, rekstrarstjóri Williams & Halls, segist líta svo á að ekkert einkaleyfi sé í gildi hér þar sem búið sé að afturkalla það eina sem máli skipti, þrátt fyrir að tæknilega sé ekki búið að staðfesta afturköllunina vegna áfrýjunarmálsins. Krafan sé að heimilt verði að selja Rivaroxaban.

„Augljóslega er gífurlegur munur á milli Bayer og Williams & Halls og um mjög svo ójafnan leik að ræða,“ segir Torfi. „Við vinnum gríðarlega mikið með Landspítalanum við að útvega þeim lyf sem mörg alþjóðleg stórfyrirtæki hafa gefist upp á að selja hér á landi vegna smæðar markaðarins.“

Í fyrirtöku hjá EPO virðist hins vegar sem ábendingareinkaleyfið verði virkjað að nýju. Torfi segir að það að Bayer framlengi einkaleyfi sitt til 2026 þýði að þeirra mati að ríkið þurfi að borga 700 milljónir aukalega til Bayer.