Stjórnvöld í Þýskalandi hafa komist að samkomulagi um að nútímavæða þýska herinn fyrir 100 milljarða evra, eða um 13,8 trilljónir íslenskra króna.

Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, hefur verið ötull talsmaður aukningar á hernaðargetu landsins síðan Rússland réðst inn í Úkraínu fyrr á þessu ári. Erfitt hefur þó reynst að mynda samstöðu um málið innan þingsins.

Með þessu er Þýskaland að standa við samkomulag sitt við aðildarríki NATO um að 2 prósent eða meira af landsframleiðslu skuli varið til varnarmála á ári hverju en hingað til hefur framlag Þýskalands verið í kringum 1,5 prósent. Síðan í kalda stríðinu hefur her Þýskalands minnkað með reglubundnum hætti en hann telur nú 200.000 hermenn í stað 500.000 í kringum 1990.

Þverpólitísk samstaða var nauðsynleg til þess að fjármagna innspýtinguna en framlagið verður fjármagnað með aukinni skuldsetningu landsins. Í stjórnarskrá Þýskalands eru sett fram skýr mörk um skuldsetningu en til að gera breytingar á henni verða tveir þriðju hlutar þingsins að gefa vilyrði sitt.

Hið aukna fjármagn verður notað til að nútímavæða hernaðargetu Þýskalands en einnig til framleiðslu og kaupa á hergögnum.