Meðal þess sem þingnefndin hefur lagt til er að hávaðamörk verði lækkuð niður í 80 dB, og þá ekki aðeins við skoðun heldur við allar aðstæður, alls staðar. Nefdin vill líka að þýska þingið verði í fararbroddi að koma þessum lögum á í öllu Evrópusambandinu. Lagt er til að þeir sem breyti mótorhjólum sínum á einhvern hátt til að auka áhvaða geti fengið háar sektir, og að hægt verði að taka mótorhjólið af þeim. Banna á það sem kallað er „hljóðhönnun“ en það er þegar framleiðendur hanna sérstakt hljóð í mótorhjól sín. Auka á möguleika lögreglu til að skoða mótorhjól af handahófi og einnig að hægt verði að draga ökumann hjólsins til saka, jafnvel þótt hann eigi ekkert í mótorhjólinu sem hann er á. Einnig er lagt til að hægt verði að senda eiganda mótorhjóls rukkun þótt ekki sé til andlitsmynd af honum, en það væri brot á þýsku stjórnarskránni. Loks er lagt til að hægt verði að banna mótorhjól á ákveðnum dögum, eða vegum og að allir sem aki mótorhjólum beri kladda til að skrá í ferðir sínar.

Það sem er merkilegt við þessar tillögur er að þær taka aðeins eina gerð farartækja fyrir, en bílaframleiðendur eru með heilu deildirnar sem hanna hljóð bíla, og þá sérstaklega sportbíla og sportjeppa. Mótorhjólasamtök í Þýskalandi hafa brugðist hart við og sakað yfirvöld um að mismuna þjóðfélagshópi og með aðstoð FEMA sem eru Evrópusamtök mótorhjólasamtaka, sagt að það verði barist gegn þessu bæði heimafyrir og í Evrópuþinginu. Að sögn Þorgerðar Guðmundsdóttur, formanns Bifhjólasamtaka Lýðveldisins, Snigla er fáránlegt að taka mótorhjóla sérstaklega fyrir út af hávaða. „Mér finnst þetta út í hött og við vonum að sjálfsögðu að þetta verði ekki svona hérna“ sagði Þorgerður.