Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út síðdegis í dag vegna manns sem slasast hafði á skútu suðaustur af Papey. Björgunarskip frá Neskaupstað og Höfn voru einnig kölluð út en skútunni var fylgt að landi, Vísir greinir frá því.
Í samtali við Vísi segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar að tveir menn um borð í skútunni hefðu slasast, annar maðurinn slasaðist svoleiðis að ekki var hægt að hífa hann um borð í þyrluna og því hafi skútunni verið fylgt að landi.
Ingvar Björnsson, formaður Siglingaklúbbs Austurlands, segir í samtali við mbl.is að maðurinn sem slasaðist illa væri með áverka á höfði og í andliti. Hann sagði sjúkrabíl bíða þeirra slösuðu á Breiðdalsvík, þangað sem skútan verður dregin.
Skútan var hérlendis vegna frönsku siglingarkeppninni Vendée Arctique, en henni var hætt í gærkvöldi vegna veðurs. 24 skútur lögðu af stað frá Frakklandi og ætluðu að sigla norður fyrir Ísland og verða þar með fyrsta siglingarkeppnin sem fer yfir heimskautsbauginn. Veðurfarið á Íslandi setti strik í reikninginn og skúturnar leituðu skjóls við Papey.