Landhelgisgæslan segir neyðarástand yfirvofandi vegna verkfalls flugvirkja. Eina starfhæfa þyrlan mun þurfa á skoðun að halda í næstu viku og verður því engin björgunar­þyrla til taks á landinu sem getur haft mjög al­var­legar af­leiðingar í för með sér.

Viðar Magnússon, yfirlæknir bráðaþjónustu utan sjúkrahúsa, segir björgunarþyrlur landhelgisgæslunnar gegna litlu en afar mikilvægu hlutverki í sjúkraflutningum dags daglega. Fyrsti kostur fyrir sjúkraflutninga sé oftast sjúkrabílar og sjúkraflugvélin en þyrlan er nauðsynleg í erfiðum aðstæðum, eins og þegar veðurskilyrði koma í veg fyrir lendingu sjúkraflugvélarinnar.

„Við reiðum okkur á það að þyrlan sé alltaf til staðar. Hún bjargar málunum þegar aðstæður eru erfiðar, svo sem við vegleysur, langar vegalengdir eða vonskuveður. Hún er tryggingin okkar og öryggið en það er slæmt þegar tryggingin er ekki til staðar,“ segir Viðar í samtali við Fréttablaðið.

Skiptir öllu máli úti á sjó

Þyrlan skiptir langsamlega mestu máli fyrir þá sem eru úti á sjó en án þyrlunnar er skjótasta viðbragðið að sigla í land. Ef um bráðaveikindi eða alvarlegt slys er að ræða skiptir viðbragðstíminn öllu máli.

„Viðbragð í Vestmannaeyjum og á Vestfjörðum verður sett í mun meiri hættu ef aðstæður skapast að sjúkraflugvél geti ekki lent þar. Sömuleiðis ef slys eða veikindi koma upp utan þéttbýlis eða utan byggða, eins og til dæmis uppi á hálendi, þá er þyrlan ómissandi,“ segir Viðar og bætir við að rjúpnaveiðar og aðrar ferðir upp á hálendi verði nú talsvert varasamari í ljósi aðstæðna.

Eini möguleikinn verður að sigla í land ef upp koma bráð veikindi eða slys úti á sjó í verkfalli flugvirkja.
Fréttablaðið/Valli

Vestmannaeyjar efst á lista

Viðar segir sjúkraflug vera besta kostinn í mörgum tilvikum, sérstaklega á Norðurlandi og Austurlandi. En á svæðum á Suðurlandi og Vesturlandi, þar sem ekki eru flugvellir eða greitt aðgengi að þeim veika eða slasaða, þá er þyrlan það eina í boði.

„Þegar aðstæður eru erfiðar eða vont veður, sem gerir það að verkum að flugvélin getur ekki lent, þá er björgunarþyrlan okkar besti valkostur.“

Viðar segir að sjúkrabílar séu að jafnaði fyrstu viðbragðsaðilar, en þeir eru mannaðir sjúkraflutningamönnum og stundum bráðatæknum eða hjúkrunarfræðingum. Læknar í héraði aðstoða þá stundum við alvarlegri útköll. Við langa flutninga eða alvarleg útköll er sjúkraflugvél oftast kölluð til á Norðurlandi, Vestfjörðum,Vestmannaeyjum, Höfn í Hornarfirði og Neskaupsstað til þess að flytja sjúklinga á Landspítalann. Þyrlan sinnir hins vegar alvarlegum slysum og bráðum veikindum á svæðum á Vesturlandi norður að Blönduósi, á Suðurlandi fyrir austan Selfoss og í uppsveitum Suðurlands og alla leið austur að Skaftafelli. Þannig er þyrlan er sjaldnast fyrsti kostur fyrir sjúkraflutninga á landi nema þegar um alvarleg slys er að ræða á Vesturlandi og Suðurlandi.

Treysta á flugvélina og sjúkrabíla

Flugvél og þyrlur Landhelgisgæslunnar fóru í 278 útköll í fyrra en Viðar áætlar að útköllin hafi verið nokkuð færri í ár vegna kórónaveirufaraldurs. Færri eru flakki um landið og minna um ferðamenn og þar með færri slys.

Aðspurður um næstu viku segist Viðar hafa þó nokkrar áhyggjur. Ef allt gengur vel verða kannski engin áhrif vegna verkfalls flugvirkja og þá verða hefðbundnar flutningsleiðir nýttar, þ.e. sjúkraflugvél og sjúkrabílar en í versta falli getur orðið mikil töf á því að aðstoð berist.

Lausn kjaradeilu leysir ekki allann vandann

Lausn kjaradeilu flugvirkja og ríkisins leysir ekki allann vandann að mati Viðars. „Uppsöfnuð þörf fyrir viðhald gæti valdið vandamálum í nokkrar vikur þó kjaradeilur leysist í dag.“

Landhelgisgæslan fékk á árinu tvær nýjar Airbus H225 þyrlur, sérhannaðar til leitar- og björgunarstarfa. Þetta var fyrsta skrefið í endurnýjun þyrluflota Landhelgisgæslunnar sem stefnir að því að endurnýja allar þyrlur í flota sínum fyrir 2022. Ferlið við að læra á viðhald og rekstur þessara nýju véla er umfangsmikið og veldur því að björgunarviðbragðið er á tímum takmarkað á meðan.

„Við erum í raun bara með tvær starfhæfar þyrlur dags daglega. Þegar ein dettur út í viðhald er björgunarviðbragð mjög takmarkað, einkum á sjó. Þetta ástand hefur verið viðvarandi í smá tíma. Það skiptir svo miklu máli að viðhaldi sé vel sinnt. Þessar nýju vélar sem við fengum hafa fjölmarga kosti en einnig ákveðna galla. Stærsti gallinn er viðbótarþjálfunin fyrir flugvirkja til að sinna þeim. Það tekur tíma að læra á þær og sinna nýjum vélarkosti.“

Viðar Magnússon, yfirlæknir bráðaþjónustu utan sjúkrahúsa.
Fréttablaðið/Valli