Þyrla Land­helgis­gæslunnar var kölluð út á um fimm leitið í dag þar sem til­kynnt hafði verið um slasaða göngu­konu við Ker­hóla­kamb á Esjunni en konan hafði þar hrasað, runnið og slasast á fæti. Björgunar­starf fer nú fram úr lofti en mikil hálka er á svæðinu.

„Að­stæður eru erfiðar í fjallinu, það er mikil hálka, og erfitt að komast land­leiðina, þess vegna var óskað eftir að­komu þyrlu gæslunnar í þessu máli,“ segir Ás­geir Er­lends­son, upp­lýsinga­full­trúi Land­helgis­gæslunnar, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Að sögn Ás­geirs var þyrlu­sveitin enn á flug­vellinum eftir út­kall við Móskarðs­hnjúka, þar sem tvær göngu­konur höfðu slasast, og því var hægt að senda þyrluna út strax.

Björgunar­starf er nú enn í gangi á svæðinu en það tók um klukkutíma við Móskarðshnjúka, þar sem aðstæður voru svipaðar.

Uppfært:

Björgunarstarfi er nú lokið en þyrla Gæslunnar komst að konunni um sex leitið og flutti hana og samferðamann hennar af vettvangi.