Þyrla landhelgisgæslunnar er nú rétt ókomin að fjallshlíð í Norðurfirði á Ströndum þar sem útkall barst um hálf eitt leytið í dag.

Þyrlan var kölluð út vegna göngumanns sem hafði runnið niður fjallshlíð og slasast.

Þetta staðfestir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi landhelgisgæslunnar, í samtali við Fréttablaðið.

„Þyrlan verður komin á vettvang rúmlega tvö og ég geri ráð fyrir að viðkomandi verði fluttur til Reykjavíkur á sjúkrahús,“ segir Ásgeir. Ekki sé vitað hvort maðurinn sé mikið slasaður.

Maðurinn var með öðrum göngumanni en sá hringdi eftir aðstoð.