Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst aðstoðarbeiðni rétt fyrir hádegi í dag vegna slasaðs skipverja í erlendu skipi, en skipið var statt um hundrað sjómílur suðvestur af Reykjanesi.
Þyrla landhelgisgæslunnar var send á vettvang og seig sigmaður um borð í skipið. Hann mat ástand hins slasaða og undirbjó hann fyrir hífingu.
Þyrlan lenti á Reykjavíkurflugvelli um klukkan hálf þrjú í dag og var hinn slasaði fluttur með sjúkrabíl á slysadeild.
Ekki er vitað nánar um afdrif hins slasaða né hvers eðlis meiðsli hans eru.