Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur verið kölluð út vegna óróapúls sem hefur mælst á flestum jarðskjálftamælum. Slík merki mælast í aðdraganda eldgosa en ekki hefur verið staðfest að eldgos sé hafið.

„Það er búið að kalla þyrluna út til að fara með starfsmenn Almannavarna yfir svæðið. Það er búið að óska eftir aðkomu okkar að því að fljúga með vísindamenn yfir Keili,“ staðfestir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar í samtali við Fréttablaðið.

Óróapúlsinn hófst klukkan 14:20 og mælist á flestum jarðskjálftamælum og er staðsettur suður af Keili við Litla Hrút. Þyrlan leggur af stað frá Reykjavíkurflugvelli innan skamms.

Almannavarnir hafa boðað til blaðamannafundar klukkan 16:00 í dag.