Húsaleiga fyrir þriggja herbergja íbúð hjá Ölmu leigufélagi hækkaði um rúmar 30 þúsund krónur á tveimur árum.

Þetta kemur fram í umsögn VR við frumvarpi Ásthildar Lóu Þórsdóttur, þingmanns Flokks fólksins, um aðgerðir til að sporna við áhrifum verðbólgu á húsnæðislán og húsaleigu.

„Í janúar 2020 greiddi lítil fjölskylda í Reykjavík 280.000 kr. í leigu fyrir þriggja herbergja íbúð hjá Ölmu leigufélagi. Greiðsluseðillinn fyrir febrúar 2022 er 310.642 kr. Húsaleigan, sem er tengd vísitölu, hefur hækkað um rúmar 30.000 kr. á mánuði á þessu tímabili og er komin yfir 60 prósent af ráðstöfunartekjum fjölskyldunnar,“ segir í umsögn Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR.

Verkalýðshreyfingin þyrfti að fara fram á 50 þúsund króna launahækkun fyrir skatt til að standa undir þessari hækkun leiguverðs að sögn Ragnars. Hann segir stöðuna á húsnæðismarkaðnum dapurlega. Skaðinn sé nú þegar orðinn mikill en muni versna til muna verði ekkert gert.

„Leigan hækkar og margir sem eru í þessari stöðu eru ekki aflögufærir til að standa undir þessum hækkunum. Hvað þá þeim miklu verðlagshækkunum sem þegar hafa orðið á nauðsynjavörum eða eiga eftir að koma fram á næstu misserum. Það er neyðarástand á húsnæðismarkaði og það þarf að bregðast við, við þurfum aðgerðir ekki seinna en strax ef ekki á illa að fara.“

Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar.
Fréttablaðið/Valli

Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar, gerði verðbólgu að umræðuefni á þingfundi í dag. Hann sakaði ríkisstjórnina að gera sjávarútvegi hærra undir höfði en heimilum.

„Mig langar að nefna að í síðustu viku greip Seðlabankastjóri til þeirra ráða að koma í veg fyrir styrkingu krónunnar í annað sinn í þessum mánuði,“ sagði Guðbrandur í óundirbúnum fyrirspurnum í dag.

„Við vitum að þetta gagnast útflutningsgreinum á meðan neytendur tapa. Í þessu inngripi er Seðlabankastjóri að koma í veg fyrir að verðbólga minnki, að vextir lækki og hagur heimilanna batni.“