Landsréttur þyngdi í gær fangelsisdóm yfir manni úr tíu mánuðum upp í átján mánuði. Maðurinn var sakfelldur fyrir fjölda brota, líkt og heimilisofbeldi, valdstjórnarbrot, þjófnað, nytjastuld og umferðarlagabrot.

Tveir ákæruliðir vörðuðu heimilsofbeldi, en í bæði málin vörðuðu árásir mannsins í garð sambýliskonu sinnar á heimili þeirra í Reykjavík árið 2020.

Í fyrra málinu var honum gefið að sök að hrinda konunni, skella henni í rúm, setjast ofan á hana og rífa í hár hennar. Síðan hafi hann kýlt hana ítrekað í andlitið með krepptum hnefa og tekið hana kverkataki. Fyrir vikið hlaut konan mikla áverka víðs vegar um líkamann.

Síðara málið var svipað, en þar var honum gefið að sök að hrinda henni í rúm og aftur í sófa, taka hana kverkataki, sparka í maga hennar og bringu og síðan slá hana í andlitið. Aftur hlaut konan mikla áverka.

Fram kemur að í báðum málum hafi maðurinn verið flúinn af vettvangi þegar lögrelgu bar að garði. Hann neitaði sök í báðum málum og vildi meina að hann hafi verið að verjast árásum hennar. Dómari mat þó framburð konunnar trúverðugan.

Maðurinn var jafnframt sakfelldur fyrir valdstjórnarbrot með því að ógna tveimur lögregluþjónum með dúkahnífi, þegar þeir voru að sinna skildum sínum á Kjalarnesi árið 2020.

Líkt og áður segir hlaut hann einnig dóm fyrir þjófnað, nytjastuld og umferðarlagabrot. Í flestum þeim málum játaði hann sök.