„Þetta er ekki alls kosta rétt og þyngd á vélinni kom því ekkert við að töskurnar voru skildar eftir. Það var afgreiðsluaðilinn okkar á Tenerife sem skildi eftir heilan vagn með ferðatöskum. Þau segja að þetta hafi verið mannleg mistök og harma þetta,“ segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Niceair, um frétt sem birtist fyrst á akureyri.net og Fréttablaðið greindi frá fyrr í dag.

Þá segir Þorvaldur það einnig rangt að áhöfnin sem flaug til Tenerife hafi þurft að stíga frá borði og erlend áhöfn tekið við vegna þess að vélin var of þung, líkt og hafi komið fram í fréttinni.

„Vissulega voru áhafnaskipti, en það var vegna þess að áhöfnin sem flaug út var runnin út á vakttíma. Það var nú eina ástæðan. Þetta var allt fyrir fram skipulagt með þessum hætti. Við vorum með aðra áhöfn á Tenerife sem flaug farþegum okkar heim,“ segir Þorvaldur, og bætir við að töskurnar séu nú komnar til landsins.

„Þær komu hingað um helgina og til síns heima á Dalvík og Húsavík í gær eða fyrradag,“ segir Þorvaldur.