„Hér er mynd af mér en þetta er ekki ég,“ segir Jonathan Duffy, betur þekktur sem Jono Duffy, á Facebook síðu sinni. Hann lenti í því að óprúttinn aðili notaði forsíðumynd af honum undir nafninu Jon Einarsson.

Jono Duffy er drepfyndinn uppistandari frá Ástralíu og hefur slegið í gegn á Íslandi á síðastliðnum árum. Hann er annar hluti Icetralia sem er eina íslenska/ástralska hlaðvarpið sem hann deilir með Hugleiki Dagssyni. Hann hefur sett upp sýningar í Tjarnarbíói og á Reykjavík Fringe. Hann var einnig listrænn stjórnandi í teymi Íslands fyrir Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 2016.
„Þegar ég sá síðuna fyrst var ég svolítið uppi með mig og fannst það fyndið,“ segir Jono í samtali við Fréttablaðið.
„Mér datt strax í hug að þessi manneskja væri ekkert sérstaklega gáfuð, þar sem Ísland er svo lítið og fólk veit hvernig ég lít út.“
Jono ákvað að hafa samband við aðilann sem skipti svo um mynd. Í þetta sinn notaði aðilinn mynd af Matt Eliason, Bandaríkjamanni sem hefur skrifað fyrir Iceland Magazine.

Jono ákvað að rannsaka málið og fann út að aðilinn ætti talsvert fleiri Facebook reikninga sem hann notar til að selja áfengi á skutlara-síðu.
„Ég sendi honum skilaboð og benti honum á að hann væri að nota mynd af mér. Hann neitaði því í fyrstu svo ég ákvað að halda áfram að pirra hann,“ segir Jono og slær á létta strengi.

„Þegar ég spurði hann hvers vegna hann væri að nota mynd af ókunnugum þá blokkaði hann mig,“ segir Jono. Hann deildi samtalinu með vinum sínum á Facebook. Þá benti einn vinur hans á að aðilinn ætti marga reikninga sem seldi áfengi og eiturlyf.
Jono er á leið í sýningarferðalag með Hugleiki Dagssyni og verður svo með sína eigin sýningu í Tjarnarbíói í maí. Hann segir sýninguna fjalla um heimferð hans til Ástralíu frá Íslandi og spjallþáttinn sem íslenskar sjónvarpsstöðvar neituðu að sýna vegna þess að hann væri ekki Íslendingur. Hann mun hlaupa hálft maraþon í sumar til styrktar Samtakanna '78 þrátt fyrir að hafa ekkert æft sig í 4 ár.