„Mér þykir ein­fald­lega of vænt um mann­kynið til þess að geta þagað yfir þessu lengur,“ segir Gunnar Björn Björns­son stærð­fræði­kennari. Eigin­kona Gunnars, Theo­dóra Mýr­dal, veiktist illa af CO­VID-19 í fyrri bylgju far­aldursins hér á landi en nú þegar CO­VID-19 virðist vera að ná flugi vill Gunnar minna á mikil­vægi þess að fara var­lega.

Gróf sjálfsblekking

Gunnar skrifaði færslu á Face­book á dögunum sem vakti mikla at­hygli. Gaf hann Frétta­blaðinu góð­fús­legt leyfi til að fjalla um efni færslunnar.

„Allir hafa heyrt um Co­vid 19 en margir telja að svona lagað komi ekki fyrir þá, þetta komi bara fyrir aðra. Því­lík og hel­vítis af­neitun! Í þeirra augum eru sótt­varnar­að­gerðir mann­réttinda­brot og brot á réttindum þeirra. Síðan er reynt að fá undan­þágur eða finna aðrar leiðir til þess að losna við að fara eftir reglunum. Far­aldurinn á ekki við um þá heldur bara hina sem geta smitast. Þeir lifa í þeirri grófu sjálfs­blekkingu að þeir séu 100% vissir um að þeir beri ekki sjúk­dóminn og að þeir þurfi engin fjar­lægðar­mörk sökum þess hve þeir eru al­gjör­lega ótta­lausir við að smitast af veiru sem getur í verstu til­fellum verið ban­væn,“ segir Gunnar.

Þrjá daga á gjörgæslu

Hann bendir á að eigin­kona hans hafi verið með stöðugan höfuð­verk í sjö vikur og það sé bara einn af fylgi­fiskum sjúk­dómsins í hennar til­felli.

„Hún var 5 daga á spítala og þar af 3 daga á gjör­gæslu! Auk þess kom í ljós lifrar­bólga og blettur á lunganu. Þetta er eitt­hvað sem ég óska engum að ganga í gegnum. Núna löngu síðar eru lungun í 80-90% af­köstum sem veldur gríðar­legri þreytu. Það nýjasta er að hún er orðin það slæm í lið­þófa að hún á veru­lega erfitt með gang og notar orðið hækjur hluta dags. Læknir sem skoðaði hnéð segist ekki hafa neina aðra skýringu fyrir þessum nýja kvilla en truflun eða skemmdir út frá Co­vid 19,“ segir Gunnar.

Hann segir að til að bæta gráu ofan á svart er hún í hópi níu prósent þeirra sem veikst hafa hér á landi sem ekki hafa myndað mót­efni. „Það er gríðar­lega erfitt að horfa upp á þá sem maður elskar veslast upp og geta lítið sem ekkert gert í hlutunum annað en að passa sjálfan sig og elska börnin sín,“ segir hann.

Of margir hlýða ekki

Gunnar segir það ljóst að allt of margir hlýða ekki þeim sótt­varnar­ráð­stöfunum sem gerðar eru.

„Í mat­vöru­búðum er ekki nóg að hafa tvo á milli þegar beðið er eftir gjald­kera, sjúk­dómurinn er líka smitandi á meðan menn sækja dót í hillurnar. Maður er stundum að breyta göngu­hraðanum til að tryggja að 2 metrar séu á milli, en þá kemur ein­hver annar allt of ná­lægt manni úr annarri átt svo maður er klemmdur í þeim skilningi að maður er ekki með 2 metra fjar­lægð í allar áttir. Hvað á maður að gera? Gefast upp og pæla ekki neitt í þessu? Á maður að reka hinn aðilann í burtu harðri hendi? Er ein­hver hefð fyrir virðingu og aga á Ís­landi?“

Gunnar hvetur fólk til að hugsa og taka hlutina al­var­lega. CO­VID-19 geti verið ban­vænt eins og svo mörg dæmi eru um.

„Það að brjóta sótt­varnar­lög og komast upp með það virkar letjandi fyrir þá sem vilja standa sig. Elskum hvert annað. Það gerum við með því að minnka líkurnar á því fólkið í kringum okkar fái ban­væna sjúk­dóma. Annað væri ansi tak­mörkuð ást er það ekki?“

Gunnar endar pistilinn á þeim orðum að vissu­lega sé ekki alltaf auð­velt að hafa tvo metra á milli fólks. „En það ætti samt að vera auð­veldara fyrir okkur en flestar aðrar þjóðir. Mér þykir ein­fald­lega of vænt um mann­kynið til þess að geta þagað yfir þessu lengur.“