Guðjón S. Brjánsson þingmaður Samfylkingar fer fyrir hópi þingmanna sem lagt hafa fram þingsályktunartillögu um að ákvæði laga um starfslokaaldur verði afnumin. Undanskilið þessu væru ákveðin störf, svo sem flugmenn, þar sem gerðar eru ákveðnar kröfur um sjón, heyrn og heilsufar.

„Það er mikilvægt fyrir fyrirtæki að halda í þekkingu og reynslu,“ segir hann. „Ég tel að það ættu ekki að vera nein mörk og það er búið að afnema hindranir af þessu tagi víða í Evrópu.“

„Ég tel að það ættu ekki að vera nein mörk og það er búið að afnema hindranir af þessu tagi víða í Evrópu."

Guðjón segir stöðuna hafa breyst með hækkandi lífaldri og betra heilsufari. Ákvæði um starfslok hafi áður verið trygging fyrir launafólk að fá að starfa fram að ákveðnum aldri en nú séu þau orðin hindrun til að starfa lengur.

Sem dæmi um þetta er mál kennara við Breiðholtsskóla í haust sem krafðist þess að fá að starfa eftir sjötugt. Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði borgina af kröfum kennarans og taldi ákvæði um hámarksaldur réttlætanlegan.

Megi þó ekki gera yngra fólki erfitt fyrir

Því hefur verið velt upp að eftir því sem eldra fólk starfi lengur komist yngra fólk ekki að á atvinnumarkaðinum. En atvinnuleysi ungs fólks er víða mjög hátt. Guðjón segir tillöguna ekki mega verða til þess að gera yngra fólki erfiðara fyrir. „Eðlileg endurnýjun verður að eiga sér stað bæði hjá fyrirtækjum og stofnunum,“ segir hann. „Þetta á sérstaklega við varðandi stjórnendur og hjá hinu opinbera hangir fólk á stjórnendapóstinum mjög lengi. Við þurfum að koma okkur upp kerfi þar sem stjórnendur geta þrepað niður starf sitt en komið áfram að mótununarstarfi, því þar nýtist reynslan vel.“

Almenna reglan er nú sú að starfsfólk láti af störfum mánuði eftir að 70 ára aldri er náð. Bæjarráð Hafnarfjarðar samþykkti í vikunni nýjar reglur þar sem heimilt er að framlengja eða endurráða fólk í annað eða sama starf.

Best sé að komast að samkomulagi

Ráðningartíminn getur þó aldrei verið lengri en tvö ár í senn. Þá þarf staðfestingu trúnaðarlæknis um starfshæfni og mat yfirmanns starfsmanns að liggja fyrir.Guðjón telur að alþingi eigi ekki að setja sérstakar reglur um þetta og hefur efasemdir um að rétt sé að krefjast þess að fólk sýni fram á læknisvottorð. „Ég tel að þetta eigi að vera samkomulag vinnuveitanda og starfsmanns. Það er hægt að gera samkomulag um breytt vinnusvið, verkefni og starfshlutfall,“ segir hann. „Þeir sem kjósa að vinna áfram og hafa heilsu til er yfirleitt fólk sem er mjög stöðugt í vinnu.“

Í greinargerð með tillögunni eru fyrirvarar á því að athuga þurfi lífeyrisréttindi og fleira. Fólk megi ekki glata réttindum sínum við að halda áfram störfum eftir sjötugt. Samkvæmt Guðjóni snýst tillagan heldur ekki um að knýja fólk til að starfa áfram, heldur hafa val. „Þetta er jafnréttismál kynslóðanna. Fólk vill hafa val og taka þessa ákvörðun sjálft. Þvinguð starfslok valda oft kvíða og þunglyndi meðal eldra fólks,“ segir hann.

Gerir ráð fyrir vilja í öllum flokkum

Með tillögunni mæla sjö þingmenn allra flokka nema Pírata. Þar sem Píratar hafa áður verið á sambærilegri tillögu gerir Guðjón ekki ráð fyrir öðru að vilji sé innan allra flokka að koma hreyfingu á þessi mál.