Edgars Rinkevics, utanríkisráðherra Lettlands, sagði í árlegu ávarpi sínu að efnahagsþvinganir á Rússa yrðu að vera til staðar eftir að hernumin svæði í Úkraínu verða frelsuð. Einnig að þau ríki sem standa með Úkraínu verði að vera meira samstíga í þvingunum.

Rinkevics segir hertar refsiaðgerðir gegn Rússum vera eitt mikilvægasta tækið til að takmarka getu þeirra til að fjármagna og heyja stríðið þar sem þær aðgerðir auki pólitískan og efnahagslegan kostnað við stríðið.

Evrópusambandið er með efnahagsþvinganir gegn Rússum, sem og Bandaríkin, Kanada, Bretland, Noregur, Ísland og fleiri ríki, en misharðar þó. Þessar þvinganir beinast meðal annars gegn orku-, flug- og hátækniiðnaði og er ætlað að veikja mátt Rússlands til þess að herja á Úkraínu.

Einnig er þvingunum beitt gegn 1.836 rússneskum einstaklingum og 171 fyrirtæki. Þar á meðal eru æðstu embættismenn Rússlands, þingmenn, meðlimir þjóðaröryggisráðsins og aðrir einstaklingar sem standa nálægt Pútín líkt og olígarkar og áróðursmeistarar.

Auk opinberra þving­unar­aðgerða hafa fjölmörg fyrirtæki hætt viðskiptum við Rússland og hefur landinu verið vísað úr íþrótta- og menningarstarfsemi, svo sem knattspyrnumótum og Eurovision.

Rinkevics sagði að ekki væri nóg að hafa þvinganirnar í gangi meðan stríðið sjálft geisaði. Eftir að Úkraínumenn frelsa allt sitt landsvæði undan hernámi þarf að viðhalda þvingunaraðgerðunum þar til Rússar viðurkenna fullveldi Úkraínu og alþjóðlega viðurkennd landamæri, en innan þeirra eru bæði Donbass og Krím. Einnig þarf Rússland að greiða skaðabætur til þess að byggja Úkraínu upp að nýju eftir gríðarlega eyðileggingu í stríðinu.

Tilkynnti Rinkevics að Lettland myndi styðja nýja áætlun Evrópusambandsins um að nota frystar eignir Rússa til að greiða fyrir uppbyggingu í Úkraínu. Að sögn Rinkevics er nauðsynlegt að kalla einnig aðila sem hafa hjálpað Rússum að forðast refsiaðgerðir til ábyrgðar.

Vladímír Pútín Rússlandsforseti undirritaði í gær tilskipun sem bannar útflutning á rússneskri olíu og olíuafurðum til ríkja sem hafa komið sér saman um verðþak á olíu frá Rússlandi. Bannið tekur í gildi 1. febrúar næstkomandi og gildir í fimm mánuði. G7-ríkin ásamt Evrópusambandinu og Ástralíu settu 60 dollara verðþak á hverja innflutta tunnu af rússneskri hráolíu sem flutt er sjóleiðis, fyrr í desem­ber.