„Þeir koma bara af fjöllum að það sé einhver að kvarta,“ segir Sigurður Halldór Jesson sem notar þvagleggi en hefur ekki fengið þá tegund sem honum hentar best síðan í fyrra eftir útboð hjá Sjúkratryggingum Íslands.

Undanfarin tíu ár hefur Sigurður þurft að þræða þvaglegg fjórum til sex sinnum á dag inn að þvagblöðrunni til þess að geta tæmt hana. Hann kveðst fljótlega hafa fundið út að ein tegund þvagleggja hafði minnst óþægindi í för með sér fyrir hann. Í nóvember í fyrra hafi honum verið tilkynnt að tegundin yrði ekki lengur á boðstólum.

Sigurður kveðst hafa fengið þær skýringar frá Sjúkratryggingum að fagnefnd hafi metið leggina sem voru í boði og talið þá standast umbeðnar öryggiskröfur. „Þær tengjast fyrst og fremst sýkingarhættu en þeir hugsa eiginlega ekkert um þægindin, eins og fyrir mig sem vinnandi mann,“ segir hann.

Leggirnir sem Sigurður notar í dag segir hann að séu miklu lengri og mun óþægilegri. „Það er erfiðara að nota þá. Þeir bogna og beygjast þegar maður er að þræða upp í. Hinn var stinnari þannig að það var auðveldara að stýra honum,“ lýsir hann. Fyrri tegundin hafi verið í litlum staukum og miklu meðfærilegri. Hann er grunnskólakennari á Selfossi og segist reyna að lifa sem eðlilegustu lífi. Nýja gerðin sé fyrirferðarmikil og óþægileg á ferðalögum til að mynda.

Í yfirlýsingu í desember í fyrra eftir kvartanir frá sérfræðilækni og Sjálfsbjörg sögðu Landspítalinn og Sjúkratryggingar Íslands að ekki hafi borist gilt tilboð í umrædda vöru. Þar með væri ekki heimilt að kaupa hana. „Landspítali og SÍ harma þann misskilning sem einkennt hefur umræðuna.“ Sigurður kveður Ice­pharma, sem flytur inn þá þvagleggi sem hann notaði áður, ekki sammála því að tilboð fyrirtækisins hafi verið ógilt. Hann hafi heyrt að leggirnir sem hann notaði áður hafi verið dýrari og átt hafi að spara.

Sjúkratryggingar greiða þvagleggi að fullu fyrir notendur. Segir Sigurður sig kosta ríkið rúmlega eina milljón krónur á ári. Hann hafi ekki ráð á að greiða eldri tegundina úr eigin vasa en hafi spurt hvort hann gæti fengið upphæðina frá Sjúkratryggingum og greitt þá mismuninn sjálfur. „Það er ekki í boði þannig að hendur mínar eru algerlega bundnar,“ segir hann.

Sigurður segist hafa komist að því að framlengja ætti rammsamninginn frá í fyrra um þrjú ár. Hann hafi því nýlega reynt að að ýta aftur við SÍ. „Viðbrögðin voru eiginlega bara „computer says no“, útskýrir hann.

„Það sem ég set helsta spurningarmerkið við er að við þvagleggjanotendur vorum aldrei spurðir hvað okkur finnst best. Ég geri ekki lítið úr reynslu bæklunarhjúkrunarfræðinga og bæklunarlækna en þeir eru nú kannski ekki að nota þessar græjur alla daga,“ segir Sigurður.

Ekki liggur fyrir hversu margir nota þvagleggi reglulega. Sigurður telur þá skipta nokkrum hundruðum. Hann hefur nú stofnað vefsíðu og einnig lokaða síðu á Facebook fyrir hópinn undir umræðu um sameiginlega hagsmuni. Níu hafa skráð sig í hópinn og eru þar byrjaðir að deila reynslu sinni.

Þvagleggirnir í grænu umbúðunum eru þeir sem Sigurður Halldór notaði áður. Leggirnir til vinstri eru þeir sem hann verður að nota í dag.

Ábendingar Sigurðar Halldórs Jessonar til heilbrigðisráðherra og Sjúkratrygginga Íslands

Þræðing

-Erfiðara er að koma umbúðum þvagleggjarins fyrir áður en þræðing fer fram. Líma þarf umbúðirnar við eitthvað og það er ekki alltaf mögulegt. Ég losa þvag við mjög mismunandi aðstæður, enda á fullu að taka þátt í lífinu eins og aðrir góðir samfélagsþegnar, þannig að ég lendi reglulega í vandræðum.

-Umbúðirnar eiga það til að opnast illa þannig að erfitt getur verið að ná þvagleggnum út þannig að hann komi beint úr sótthreinsuðu umhverfi að þvagrásaropinu.

-Leggurinn er mun mýkri/eftirgefanlegri og erfiðara að hitta á þvagrásaropið. Þetta kostar það að ég þarf oftar að nota fleiri en einn legg við þræðingu þar sem hann skreppur frá þvagrásaropi og tapar sótthreinsunareiginleikum sínum. Þetta veldur því að ég þarf mun oftar að nota fleiri leggi yfir daginn en áður. Það þýðir meðal annars meiri kostnað fyrir samfélagið.

-Þegar þvagleggur er kominn í þvagrásaropið á hann það til að bogna og beygjast þegar verið er að þræða hann inn í þvagrásina. Skiptir þá engu máli hvort farið er hægt í sakirnar eða ekki.

-Þvagleggurinn stoppar oftar við efri þvagrásarloka og þarf að gera nokkrar atlögur til að hann opni fyrir leggnum.

-Þvagið frussast meira út um þvaglegginn auk þess sem stundum lekur með honum og veldur það ósnyrtilegheitum.

-Næturpiss getur verið mjög þvagleggjafrekt. Það var ekki einfalt að pissa með gömlu þvagleggjunum á nóttunni með stýrur í augunum - en er þó margfalt erfiðara með þeim sem ég neyðist til að nota núna.

Vinna/ferðalög

-Umbúðir eru mun fyrirferðarmeiri (sjá mynd sem fylgir þessu bréfi). Gerir leggina þ.a.l. sýnilegri sem oftar vekur spurningar þeirra sem ég umgengst dags daglega. Þeir eru fjölmargir því ég er grunnskólakennari.

-Ef ferðast á með þvagleggina milli staða þarf að brjóta þá saman. Það hefur þau áhrif að leggirnir verða allir bognir og þræðing gengur þar af leiðandi verr fyrir sig. Skiptir þá engu hvort ég strýk yfir umbúðirnar áður en ég opna þær.

-Ef maður ætlar að stinga einum þvaglegg í vasann þarf að þríbrjóta hann saman. Við það verður hann mun fyrirferðarmeiri en sá gamli og mun óþægilegra er að bera hann á sér.

-Rétt um þriðjungur af fjölda þeirra þvagleggja sem hægt var að taka með sér kemst í þar til gerða tösku fyrir þvagleggina. Þannig að ef í langferð er farið eins og flugferð fer mun meira fyrir sambærilegum fjölda og maður tók með sér af þeim gömlu góðu.

-Erfiðara er að þræða sig inni á flugvélasalernum en með gamla því gamli leggurinn var stinnur og flottur og auðveldara að stýra honum í þeim titringi sem er í flugvél og í lest ef því er að skipta. Ég er búinn að prófa báðar aðstæður og þetta er hundleiðinlegt með þeim leggjum sem mér er boðið upp á og oft þá þarf marga leggi til að losa blöðruna.

-Eins er ekkert auðvelt að nota þvaglegginn sem mér er boðið upp á í þröngum rýmum eins og almenningssalernum því hann er mun lengri en sá gamli. Þetta kallar á meira rými við þræðinguna.

Umhverfismál

-Flóknara er að endurvinna. Aðskilja þarf umbúðir og þvaglegg. Sú flokkun kostar meira rými inni á salerni og er ekki aðlaðandi þar. Lítið fór fyrir gömlu leggjunum, þeir flokkuðust sem ein heild og hægt var að loka notaða þvaglegginn inn í umbúðunum.