Áhugafólk um íslensk stjórnmál hefur haft augun á þingkonunni Rósu Björk Brynjólfsdóttur allt þetta kjörtímabil. Hún var ósátt við þá ákvörðun flokksforystunnar að fara í ríkisstjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum eftir síðustu kosningar og hefur aldrei leynt þeirri afstöðu sinni. Nú er mælirinn fullur og Rósa Björk hefur loksins tekið þá ákvörðun að yfirgefa flokkinn. Tvær konur sem hafa verið virkar í flokksstarfinu fylgdu fordæmi hennar síðdegis í dag.

Félagar í VG vilji gera vel við börn á flótta

„Það er alveg ljóst að það er ólga innan Vinstri grænna.  Kjósendum og félögum í VG er annt um málefni flóttafólks og vilja gera vel við það, sérstaklega börn á flótta og barnafjölskyldur,“ segir Rósa Björk.

Ákvörðun Rósu Bjarkar vakti mikil viðbrögð á samfélagsmiðlum í dag og stuttu eftir að fjölmiðlar greindu frá henni, tilkynnti Eydís Blöndal, varaþingkona flokksins, að hún hefði einnig sagt sig úr VG og vísaði til brottvísunar Egypsku fjölskyldunnar líkt og Rósa Björk.

Á hæla þeirra Rósu og Eydísi fylgdi svo Hildur Knútsdóttir, fyrrum frambjóðandi flokksins, með yfirlýsingu um að hún gæti ekki kosið flokkinn. Hún hrósaði Rósu Björk fyrir að standa með flóttafólki og sannfæringu sinni og auglýsti svo eftir flokki sem hefur umhverfið, jafnrétti og mannúð að leiðarljósi, í færslu á Facebook síðu sinni. Hildur er formaður Loftslagssjóðs, skipuð af Guðmundi Inga Guðbrandssyni umhverfisráðherra og varaformanni VG.

Andrés: Málaflokkurinn heldur áfram að versna

„Ég skil mjög vel ástæður Rósu Bjarkar, enda þær sömu og ég nefndi þegar ég yfirgaf flokkinn í nóvember í fyrra. Það voru ekki síst málefni hælisleitenda og flóttafólks sem mér fannst þá komin í óefni og þau hafa bara haldið áfram að versna síðan,“ segir Andrés Ingi Jónsson, þingmaður utan flokka, sem sagði sig úr þingflokki Vinstri grænna og hreyfingunni fyrir tæpu ári síðan. 

Hann segir þau Rósu Björk alltaf hafa átt gott samband, alveg frá því áður en þau settust á þing fyrir VG, en hefur aðspurður ekki heyrt í henni eftir að hún tilkynnti um brotthvarf sitt úr flokknum í dag. „Ég sendi henni bara skilaboð og óskaði henni alls hins besta,“ segir Andrés Ingi.

Miður að stefna Sigríðar Andersen nái yfirhöndinni

Sjálf segist Rósa Björk hafa fengið jákvæð viðbrögð í dag og fólk sýni því skilning að hún taki prinsippafstöðu.

„Ég held líka að það sé nauðsynlegt að stjórnmálafólk tali afdráttarlaust með mannúð og um mannúðlega meðferð á fólki sem til okkar leitar eftir skjóli. Stjórnmálafólk á ekki að þurfa að vera hrætt við að taka skýra afstöðu með mannúð,“ segir Rósa Björk og bætir við: „Svo er auðvitað bara mjög miður að Sjálfstæðisflokkurinn sé að herða sig svona mikið og að stefna Sigríðar Á Andersen í málefnum útlendinga og flóttafólks sé að ná yfirhöndinni.“

Eftirspurn eftir grænni stjórnmálum

Frá því Rósa Björk settist á þing hefur hún lagt mesta áherslu á femínisma og mannúðar- og mannréttindamál auk grænu málana.

„Það er eftirspurn eftir grænni stjórnmálum, sérstaklega hérna á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Rósa Björk. Hún segist hafa fundið fyrir enn meiri eftirspurn eftir slíkum áherslum eftir að  heimsfaraldurinn skall á.

„Covid er að vekja með okkur meiri samkennd. Þetta er heimsfaldur sem við förum öll saman inn í og við þurfum líka að komast út úr honum saman,“ segir Rósa og bendir á að um allan heim sé stjórnmálafólk að tala fyrir grænum leiðum út úr faraldrinum.

Verkefnið framundan að gera betur

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, birti ýtarlega færslu um málefni útlendinga og flóttafólks á Facebook síðu sinni síðdegis. Þar segir hún umræðu síðustu daga sýna að ríkur vilji sé til þess í samfélaginu að gera betur í þessum málum. Það sé verkefnið framundan.

Fjöldi fólks á flótta á heimsvísu hefur meira en tvöfaldast á tíu árum og því hefur fylgt mikið umrót hvarvetna þegar...

Posted by Katrín Jakobsdóttir on Thursday, September 17, 2020