Patti, Binni, Bassi, Gunnar og Sæmundur hafa slegið í gegn í raunveruleikaþáttunum Æði. Þeir voru með vagn í Pride-göngunni sem fór fram í gær. Allir eru þeir sammála um að Ísland sé ákjósanlegur staður fyrir hinsegin fólk en að alltaf megi gera betur.

Binni: „Mér finnst mjög mikilvægt að við berjumst gegn fordómum. Því miður er enn þá hatur í garð hinsegin fólks og það er mjög mikilvægt að fræða fólk um hinseginleikann og að það átti sig á að við erum manneskjur eins og allir aðrir.“

Binni: „Það að halda Pride og fagna fjölbreytileikanum gerir sjúklega mikið fyrir samfélagið og hinsegin fólk. Pride gerir mig stoltan af sjálfum mér og það að finna alla þessa ást er svo mikilvægt og geggjað. Sérstaklega eftir allt sem maður hefur gengið í gegnum í öll þessi ár eins og að koma út, vera accepted og fleira.“

Patti: „Það er svo gott að sjá og finna þessa samstöðu sem er á Pride. Að vita að hérna á Íslandi standi flestir með hinsegin fólki og fagni fjölbreytileikanum.“

Bassi: „Við þurfum líka að vera sýnileg. Það er alltaf verið að tala um að hinsegin fólk sé að troða sér og sínu út um allt og sé með svakalega sýniþörf en við þurfum að gera þetta, vera loud and proud, það er ekki langt síðan það var bara varla hægt að vera hommi hérna. Páll Óskar var bara ridiculed (hafður að háði) fyrir það að vera eins og hann var.“

Patti: „Það hefði ekki verið eins fyrir okkur að koma út fyrir fimmtíu árum, við hefðum bara verið teknir af lífi fyrir það að vera eins og við erum. Við hefðum bara verið eins og einhver dýr í sirkus og það má ekki gleyma því að við höfum þessi réttindi og erum svona frjáls af því að fólkið á undan okkur er búið að berjast fyrir okkur.“