Bólu­setningar á fram­línu­starfs­fólki í heil­brigðis­þjónustunni og í­búum hjúkrunar­heimilanna hefjast á morgun. Heil­brigðis­ráð­herra segir það gefa auga leið að hægt verði að slaka á sótt­varna­tak­mörkunum í landinu sam­hliða bólu­setningum á næstu vikum og mánuðum. Því fleiri í á­hættu­hópum sem verða ó­næmir fyrir veirunni þeim mun minni hætta verður á ferð og ó­lík­legt að álag verði of mikið á spítölum landsins.

Gengur vonandi hratt og vel fyrir sig


„Það sem við komum til með að sjá er að eftir því sem að bólu­setningunum vindur fram á næstu mánuðum þá mun það hafa á­hrif á sótt­varna­ráð­stafanir,“ sagði Svan­dís Svavars­dóttir heil­brigðis­ráð­herra í sam­tali við Frétta­blaðið við af­hendingu fyrstu skammta bólu­efnis Pfizer. Tíu þúsund skammtar, sem duga til að bólu setja fimm þúsund manns, voru af­hentir Ís­lenska ríkinu í dag.

„Okkar mark­mið, til að byrja með, er að geta klárað bólu­setningar hjá þeim hópum sem eru mest út­settir fyrir veirunni og hjá elstu aldurs­hópunum. Þeim eru miklu mun hættara við al­var­legum veikindum og al­var­legum á­hrifum af veirunni. Um leið og við erum búin að ná vel utan um þann hóp þá gefur auga leið að við getum farið að slaka á í sótt­varna­ráð­stöfunum. Þannig þetta mun gerast sam­hliða og ég vonast til að þetta muni gerast hratt og vel,“ segir Svan­dís.

Bólu­efna­skammtarnir sem lentu í dag duga til að bólu­setja fyrstu þrjá for­gangs­hópana á Ís­landi; heil­brigðis­starfs­fólk á bráða­mót­töku og gjör­gæslu­deilda Land­spítala og Sjúkra­hússins á Akur­eyri, starfs­fólki Co­vid-göngu­deildar og loks íbúa hjúkrunar- og dvalar­heimila. Von er á þrjú til fjögur þúsund skömmtum frá Pfizer til landsins á hverri viku út mars­mánuð. Þannig er gert ráð fyrir að búið verði að bólu­setja um 25 þúsund manns á landinu í lok mars. Einnig er vonast til að bólu­efni fleiri fram­leið­enda, til dæmis Moderna, fái sam­þykki Lyfja­stofnunar Evrópu og komi til landsins á næstu mánuðum.

Svan­dís gerir því ráð fyrir að efna­hags­líf á Ís­landi fari að taka við sér bráð­lega. „Já, þetta hangir allt saman; dag­legt líf okkar allra, bjart­sýni og efna­hags­lífið. Um leið og við stígum þetta skref í dag eru það já­kvæðar fréttir, ekki bara fyrir okkur hvert og eitt heldur líka fyrir sam­fé­lagið og efna­hags­lífið, heimilin og fjöl­skyldurnar. Ég held að við eigum að leyfa okkur að líta á daginn í dag sem dag gleði og bjart­sýni.“

Sömu aðgerðir fyrst um sinn

Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir, sem hefur séð um að leggja fram til­lögur að sótt­varna­að­gerðum til heil­brigðis­ráð­herra, sem síðan hefur oftast fylgt þeim eftir í reglu­gerðum sínum, tekur í sama streng og ráð­herrann. Hann telur að hægt verði að slaka æ meira á tak­mörkunum eftir því sem fleiri í á­hættu­hópum verða bólu­settir.

Erfitt er þó að segja til um hversu fljótt bólu­setningarnar fara að hafa á­hrif á sam­komu­tak­markanir. „Ég held að núna fyrst um sinn þá þurfum við að búa við sömu sótt­varna­að­gerðir, þessar ein­stak­lings­bundnu sótt­varna­ráð­stafanir og svo fram­vegis. En vonandi náum við bara fljótt að vernda við­kvæmustu hópana svo við getum farið að slaka á en svo náttúru­lega fer það líka bara eftir því hvernig far­aldurinn verður hérna innan­lands. Það er ekki bara bólu­setningin heldur líka hvernig far­aldurinn verður næstu daga og vikur,“ segir Þór­ólfur. Hann hefur á­hyggjur af því að far­aldurinn nái sér aftur á strik eftir há­tíðirnar.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að ekki verði hægt að slaka á aðgerðum alveg strax en það verði hægt þegar búið að bólusetja fleiri í áhættuhópum á landinu á fyrstu mánuðum næsta árs.
Fréttablaðið/Ernir