Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, segist ekki hafa áhyggjur af því að verið sé að afhenda fólki ávanabindandi ópíóíða, Parkódín, við langvarandi þurrum hósta í kjölfar Covid-sýkingar.
Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans, segir það „með verri þvælu sem hann hefur heyrt“ að sjúklingum sem smitast hafi með Covid-19 og eru með langvarandi þurran hósta sé ávísað Parkódíni, sem er mjög ávanabindandi ópíóíði, og kallar eftir því að fólki sé ráðlagt að reyna önnur ráð. Hann segir nýjar rannsóknir benda til þess að gagnsemi Parkódíns við hósta sé mjög takmörkuð.
Ekki eina ráðið
Lyfjastofnun setti í vikunni tímabundna heimild til að selja Parkódín án lyfseðils til fólks með slík einkenni vegna mikils álags á heilsugæsluna en Parkódín er talið hafa „nokkra hóstastillandi verkun“.
„Það eru gefin öll ráð áður en það er gripið í þetta ráð. Það er ekki eins og við séum að henda töflum í alla sem eina heilaga leiðin. Þetta er bara ein leið af mörgum úrræðum sem við höfum og er byggt á klínískum leiðbeiningum frá Covid-göngudeildinni,“ segir Sigríður Dóra í samtali við Fréttablaðið.
Hún segir að þetta sé aldrei eina ráðið sem fólk fær. Því sé ráðlagt að taka önnur hóstastillandi lyf, slímlosandi, astmalyf, berkjuvíkkandi lyf.
„Þetta er eitt af þeim úrræðum sem við höfum og því fer fjarri að við séum að Parkódínvæða alla. En ég fagna umræðunni meðal lækna að þeir séu samstíga í því að stemma stigu við ávanabindandi lyfjum sem geta mögulega haft ávanahættu í för með sér og við munum taka það áfram. En þetta gerir gagn í völdum tilvikum og það er það sem að við erum að nota þetta á.“
Óvíst hversu hátt hlutfall fær þurran langvarandi hósta
Í gær voru fluttar fréttir af því að Parkódín ryki út úr apótekum eftir að heimildin var sett en Sigríður Dóra segir það ekki nýtt. Það hafi rokið út fyrir það.
Þannig tilfellin eru svona rosalega mörg?
„Já tilfellin eru svona rosalega mörg. Það eru að greinast nokkur þúsund á dag og stór hluti fer ekki einu sinni í formlega greiningu heldur greinir sig sjálfur. Við erum því með 20 þúsund sýkta einstaklinga í smfélaginu og fólk er því miður með heilmikil einkenni af þessari veirupest,“ segir Sigríður Dóra.
Spurð hversu hátt hlutfall fær þann þurra langvarandi hósta sem þarf að vera með til að fá parkódínið segir Sigríður Dóra að hún hafi ekki tölur um það en að það sé stórt hlutfall þeirra sem greinist núna, með afbrigði af Omíkron, að greinast með töluverð einkenni og veikindi.
„Þetta er eitt af mörgum úrræðum og hefur lengi verið notað, sem eitt af úrræðum, við hósta og við erum að nálgast þetta þannig. En auðvitað á alltaf að skoða annað fyrst. Við vorum mjög þakklát Lyfjastofnun að veita okkur þessa undanþágu því það er gífurlegt álag á símkerfið og á allar heilsugæslustöðvar af fólki sem líður illa. Allt sem getur létt okkur lífið eftir tvö ár af Covid, við erum mjög þakklát fyrir það.“

Snýst um að treysta fólki
Spurð hvernig sé gengið úr skugga um það að aðeins fólk með þurran langvarandi hósts fái parkódínið segir Sigríður Dóra að það þurfi að vera með nýlega greinda Covid-sýkingu en að það sé erfitt að ganga úr skugga um að fólk sé hóstandi því það er mælt gegn því að fólk fari sjálft í apótekið og stofni þannig starfsfólki þess í hættu.
„Eins og með allar aðrar lyfjaávísanir þá verðum við að treysta fólki. Við erum alltaf að eiga í samtali við fólk og treysta því í okkar starfi í heilsugæslunni og við verðum að gera það áfram.“
En eruði hrædd við mögulegar afleiðingar þess að afhenda fólki ópíóíða með þessum hætti?
„Við vildum helst losna við að nota sterk verkjalyf við hverju sem er en maður er aldrei sáttur. En ég hef ekki áhyggjur af svona skammtímaúrræði í svona litlum skömmtum á ákveðnum forsendum. Ég hef ekki áhyggjur af því,“ segir Sigríður Dóra.
„Við erum að tala um tíu stykki fyrir fólk sem er með nýlega greiningu og er með óþægindi. Ég hef ekki áhyggjur af misnotkun á þessu.“
Hún segir að læknar og lyfsalar geti skoðað sameiginlegan gagnagrunn þar sem hægt er að sjá hvort að fólki hafi verið ávísað Parkódíni áður og hvort að þau hafi farið í annað apótek í þessu tilfelli og fengið það án lyfseðils.
Sigríður Dóra segir að það hafi verið óskað þess að þessi tímabundna heimild myndi gilda fram yfir páska því að þá verði minni þjónusta en að enn sé þá gert ráð fyrir töluverðum veikindum.
„Það eru viss skilyrði, það er fagfólk sem afhendir þetta og ég hef ekki áhyggjur af meiri misnotkun á þessu en gengur og gerist í samfélaginu.“
Aðrar leiðir færar áður
Áður en fólk fer í að taka Parkódín segir Sigríður Dóra að það sé mikilvægt að huga að vökvainntöku og næringu, fara í sturtu eða bað, skipta um legu og gæta þess að liggja ekki bara á bakinu. Þá sé gott að standa upp og labba um.
„Það eru til í lausasölu slímlosandi og hóstasaft og svo eru allskonar húsráð eins og hunang eða te. Þetta er aldrei fyrsta úrræði en getur gagnast í völdum tilvikum.“
Sigríður Dóra saknar þess í umræðunni að fjallað sé um þau verulegu veikindi sem fylgja Covid þótt svo að um sé að ræða „vægasta afbrigði“ þess og á þá við Omíkron-afbrigðið sem hefur verið allsráðandi í marga mánuði.
„Það eru upplýsingar sem kannski hafa ekki ratað út núna. Fólk er mjög veikt, lengi, í margar vikur. Með óþægindi og þarf astmalyf. Við megum ekki tala þetta niður og láta eins og ekkert sé. Þetta er ekki þannig, því miður. Við þurfum enn að gæta okkar í að smita ekki hvort annað.“