Helga Vala Helgudóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis og þingkona Samfylkingarinnar, á von á því að frumvarp heilbrigðisráðherra um breytingar á sóttvarnalögum verði afgreitt úr nefnd á þriðjudag í næstu viku. Nefndin fundaði seinni part í dag og fram á kvöld um málið.
Spurð hvort um málið væri þverpólitísk samstaða um frumvarpið í nefndinni játaði Helga Vala því. Hún sagði að þau myndu vinna málið áfram í sameiningu.
Í frumvarpinu eru meðal helstu breytinga á lögunum að skýrar verði kveðið á um skyldur einstaklinga sem lækni grunar að séu haldnir smitsjúkdómi, málsmeðferð ákvarðana um að setja fólk í sóttkví og um að sóttvarnaráð skuli vera ráðgefandi við stefnumótun og hlutverk þess skarist ekki við hlutverk sóttvarnalæknis sjálfs. Þá er þar ákvæði sem heimilar ráðherra að setja útgöngubann sé talin þörf á því.