Mynd­band sem sýnir þúsundir gesta saman­komna í brúð­kaupi í Brook­lyn í New York hefur vakið tals­verða at­hygli. Strangar sam­komu­tak­markanir hafa verið í gildi í New York að undan­förnu vegna kórónu­veirufar­aldursins en ekki mega fleiri en 50 koma saman.

Mynd­bandið var tekið þann 8. nóvember síðast­liðinn í Y­etev Lev-D‘Satmar-bæna­húsinu í Willi­ams­burg. Þúsundir strang­trúaðra gyðinga voru þar saman­komnir til að fagna brúð­kaupi Yoel Teit­el­baum en hann er barna­barn Aaron Teit­el­baum sem er hátt settur rabbíni.

New York Post greinir frá því að mynd­bönd úr brúð­kaupinu hafi verið dreift á sam­fé­lags­miðlum að undan­förnu. Á þeim sjást þúsundir ein­stak­linga skemmta sér konung­lega, þétt saman og án þess að nota and­lits­grímur.

At­hygli vekur að yfir­völd í New York höfðu nokkrum vikum áður komið í veg fyrir annað brúð­kaup innan þessarar sömu fjöl­skyldu, en þá stóð til að halda veg­lega brúð­kaups­veislu fyrir barna­barn Zalmans Teit­el­baum en hann er bróðir Aarons Teit­el­baum. Gert var ráð fyrir að allt að tíu þúsund manns yrðu við­staddir það brúð­kaup.

Til að forðast sömu ör­lög var brúð­kaupið 8. Nóvember ekki aug­lýst sér­stak­lega heldur voru veislu­höldin látin spyrjast út innan sam­fé­lagsins. Ekki liggur fyrir hversu margir voru á svæðinu en bæna­húsið tekur um sjö þúsund manns. Miðað við mynd­bandið sem sést hér að neðan má ætla að fjöldinn hafi ekki verið mikið undir sjö þúsund.

Andrew Cu­omo, ríkis­stjóri New York, gagn­rýndi sam­komuna harð­lega í við­tali við AP-frétta­stofuna um helgina. Þá til­kynnti Bill de Blasio, borgar­stjóri New York, að for­svars­menn bæna­hússins hefðu verið sektaðir um 15 þúsund Banda­ríkja­dali, rúmar tvær milljónir króna.