Myndband sem sýnir þúsundir gesta samankomna í brúðkaupi í Brooklyn í New York hefur vakið talsverða athygli. Strangar samkomutakmarkanir hafa verið í gildi í New York að undanförnu vegna kórónuveirufaraldursins en ekki mega fleiri en 50 koma saman.
Myndbandið var tekið þann 8. nóvember síðastliðinn í Yetev Lev-D‘Satmar-bænahúsinu í Williamsburg. Þúsundir strangtrúaðra gyðinga voru þar samankomnir til að fagna brúðkaupi Yoel Teitelbaum en hann er barnabarn Aaron Teitelbaum sem er hátt settur rabbíni.
New York Post greinir frá því að myndbönd úr brúðkaupinu hafi verið dreift á samfélagsmiðlum að undanförnu. Á þeim sjást þúsundir einstaklinga skemmta sér konunglega, þétt saman og án þess að nota andlitsgrímur.
Athygli vekur að yfirvöld í New York höfðu nokkrum vikum áður komið í veg fyrir annað brúðkaup innan þessarar sömu fjölskyldu, en þá stóð til að halda veglega brúðkaupsveislu fyrir barnabarn Zalmans Teitelbaum en hann er bróðir Aarons Teitelbaum. Gert var ráð fyrir að allt að tíu þúsund manns yrðu viðstaddir það brúðkaup.
Til að forðast sömu örlög var brúðkaupið 8. Nóvember ekki auglýst sérstaklega heldur voru veisluhöldin látin spyrjast út innan samfélagsins. Ekki liggur fyrir hversu margir voru á svæðinu en bænahúsið tekur um sjö þúsund manns. Miðað við myndbandið sem sést hér að neðan má ætla að fjöldinn hafi ekki verið mikið undir sjö þúsund.
Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York, gagnrýndi samkomuna harðlega í viðtali við AP-fréttastofuna um helgina. Þá tilkynnti Bill de Blasio, borgarstjóri New York, að forsvarsmenn bænahússins hefðu verið sektaðir um 15 þúsund Bandaríkjadali, rúmar tvær milljónir króna.