Fyrri umferð pólsku forsetakosninganna fer fram þann 28. júní næstkomandi. Upprunalega áttu þær að fara fram 10. maí, en var frestað vegna COVID-19 faraldursins.

Hart var tekist á um kosningarnar og pólsk stjórnvöld gagnrýnd, bæði innan og utanlands, fyrir að ætla að ana áfram með þær eins og ekkert hefði í skorist. Þann 3. júní tilkynnti þingforseti um dagsetningarnar, en seinni umferðin fer fram 12. júlí.

Samkvæmt Gerard Pokruszynski, sendiherra Póllands á Íslandi, hafa rúmlega 3000 manns skráð sig sem kjósendur hjá sendiráðinu. Það eru umtalsvert f leiri en kusu í þingkosningunum síðasta haust, 2656. Fresturinn til að skrá sig hjá sendiráðinu er 25. júní. „Það er töluvert talað um kosningarnar á meðal Pólverja hér,“ segir Gerard. „Efst í hugum fólks er vitaskuld að reglubundið flug komist á milli Íslands og Póllands, en kosningarnar eru í öðru sæti.“

Aðeins einn dagur er á milli íslensku og pólsku forsetakosninganna og Gerard segir það skemmtilega tilviljun í ljósi þess að forsetar landanna tveggja, Íslands og Póllands, Guðni Th. Jóhannesson og Andrzej Duda, hafi fundað í Varsjá í mars síðastliðnum.

Fastlega er búist við því að Duda, sem situr á forsetastóli fyrir stjórnarflokkinn Lög og réttlæti, og Rafal Trzakowski, frambjóðandi Frjálslynda borgaraf lokksins, komist áfram í fyrri umferð kosninganna.

Tíu aðrir frambjóðendur eru í framboði, þar af sjö óflokksbundnir. Þá eru Robert Biedron, fyrir Vinstribandalagið, Krzysztof Bosak, fyrir Þjóðfylkingu öfga hægrimanna, og Wladislaw Kosiniak-Kamyz fyrir Flokk fólksins sem er miðjuflokkur, einnig í framboði í kosningunum.

Mesta möguleika á að ná að ógna þeim tveimur fyrrnefndu er hins vegar sjónvarpsmaðurinn Szymon Holownia sem hefur í skoðanakönnunum mælst með allt að 20 prósenta fylgi.

Óvíst er hversu góð þátttaka verður í kosningunum en samkvæmt skoðanakönnun er rúmur þriðjungur á móti samkomulaginu um að halda kosningarnar í sumar. Andstæðingar kosninganna hafa talað fyrir því að kjósendur sniðgangi þær.

Athygli vakti að niðurstöður í síðustu þingkosningum meðal Pólverja á Íslandi voru töluvert á skjön við heildarniðurstöðuna þar sem Lög og réttlæti tryggði sér þingmeirihluta. Flokkurinn fékk aðeins 17 prósent á Íslandi en Vinstribandalagið fékk f lest atkvæði, 27 prósent. Bandalag um frelsi og sjálfstæði, sem eru öfga hægrimenn, fékk 26 prósent og Frjálslyndi borgaraflokkurinn 25 prósent.